2.3.2017 10:30

Fimmtudagur

Viðtal mitt á ÍNN við Svein Einarsson leikstjóra um leiklistarsögu hans er komið á netið og má sjá það hér.

Það verður æ greinilegra af fréttum frá alþingi að Svandís Svavarsdóttir, formaður þingflokks VG, notar stöðu sína til að skyggja á Katrínu Jakobsdóttur flokksformann.

Þeir sem fylgjast náið með stöðunni í forystumálum flokksins telja að Katrín hafi ákveðið að draga sig í hlé. Hún hafi notið skjóls sem formaður á meðan Steingrímur J. Sigfússon var flokkspólitískt virkur, hann láti nú minna að sér kveða sem slíkur eftir að hafa verið forseti alþingis í nokkrar vikur og nú sem fyrsti varaforseti þingsins. Katrín hafi verið brú milli þéttbýlis og dreifbýlis í flokknum. Í stjórnarmyndunarviðræðunum eftir kosningarnar 29. október 2016 varð klofningur innan VG milli landsbyggðarmanna sem vildu samstarf við sjálfstæðismenn og framsóknarmenn og þeirra sem kenndir eru við 101 Reykjavík og vildu samstarf við Pírata.

Svandís talar eins og vinstrisinnar í nágrannaríkjunum sem helst eru taldir fæla kjósendur frá flokkum á borð við Verkamannaflokkinn í Bretlandi eða Sósíalistaflokkinn í Frakklandi vegna andstöðu sinnar við einkaframtak og krafna um hærri skatta og meiri ríkisafskipti.

Þessi afstaða Svandísar birtist til dæmis greinilega á alþingi miðvikudaginn 1. mars þegar hún ræddi um heilbrigðismál við Óttar Proppé, heilbrigðisráðherra Bjartrar framtíðar. Í máli hennar gætti einnig þess hroka sem VG-menn telja sér sæma að sýna frjálslyndum miðjuflokkum á borð við Bjarta framtíð.

„Og við þekkjum það í stjórnmálum á öllum tímum að peningaöflin sækja að velferðarkerfin, heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu þegar vantar viðnám fyrir fjármagnið. Vantar leiðir til að hagnast. Þá er sótt í innviði almannahagsmunanna,“ sagði Svandís og krafðist vitneskju um framtíðarsýn heilbrigðisráðherra. Henni voru svör ráðherrans ekki að skapi og sagði:

„Ætlar hann að standa með opinberu heilbrigðiskerfi í þágu heildarinnar, eða ætlar hann að halla sér á hina hliðina og hafa sérstaka samúð með þeim hyggjast hagnast á veiku fólki, spurði þingflokksformaðurinn.

Feitletruðu orðin bera með sér hrokann og fyrirlitninguna sem einkennir málflutning þessa arms VG. Þetta fólk vill frekar langa biðlista en að einstaklingar geti leitað eftir þjónustu annarra en þeirra sem lúta alfarið stjórn og forræði ríkisvaldsins.

Það væri óskandi að ungir, frjálshuga þingmenn tækju frekar slag um grundvallarmál af þessu tagi en nýti krafta sína til að ræða fyrirkomulag við sölu á áfengi. Baráttan fyrir minni ríkisafskiptum á betri málstað skilinn en þann sem snýr að áfengissölu.