1.3.2017 14:30

Miðvikudagur

Í dag ræddi ég við Svein Einarsson leikstjóra í þætti mínum á ÍNN. Sveinn sendi nýlega frá sér 3. bindi leiklistarsögu sinnar. Verkið nær yfir árin 1920 til 1960 og fjallar því um mikinn umbrotatíma í þessari merku menningarsögu. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 20.00 í kvöld. 

Miðað við þann ávinning sem náðst hefur með kjarasamningum hefði í raun verið óðs manns æði ef ASÍ hefði vísað til forsendubrests og rofið samningana. Tíminn til þess var fram til 1. mars. Hrakspár höfðu birst um að þetta yrði örlagadagur því að algjört uppnám yrði á vinnumarkaði, ekki síst vegna þess að kjararáð leiðrétti laun þingmanna til samræmis við þróun undanfarinna ára og birti niðurstöður sína þegar gengið hafði verið til kosninga 29. október 2016.

 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra fjallaði um kjaramál þingmanna í grein í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 26. febrúar og sagði:

 

„Með lögum er kjararáði skylt að hafa almenna launaþróun til hliðsjónar við ákvörðun launa þingmanna og ráðherra, auk annarra atriða. Þegar laun þingmanna eru skoðuð 10 ár aftur í tímann kemur í ljós að lengst af þessum tíma fylgdu laun þessara kjörnu fulltrúa ekki almennri launaþróun. Á árunum 2006 – 2014 hækkuðu laun á almennum markaði um 73% en laun þingmanna um 38%. Þar var þó ekki við kjararáð að sakast því þingmenn sjálfir gripu inn í þessi mál með lagasetningu og breyttu ákvörðunum kjararáðs á þessu tímabili. Eftir ákvörðun kjararáðs 30. október síðastliðinn hækkaði þingfararkaup hins vegar verulega, þó ekki afturvirkt eins og gjarnan á við á vinnumarkaði, og hefur þá frá árinu 2006 hækkað um 117% á meðan laun á almennum markaði hafa hækkað um 106%.

Forsætisnefnd alþingis brást nýlega við þessum tíðindum með því að lækka starfskostnaðargreiðslur þingmanna um 104 þúsund krónur á mánuði sem jafngildir um 150 þúsund króna launalækkun. Þar með má segja að launaþróun þingmanna sé aftur komin undir almenna þróun.“

 

Ég sat á alþingi árið 2006 þegar uppnámið varð vegna úrskurðar kjararáðs þá og lögum var breytt vegna gagnrýni á niðurstöðuna þá. Meiri staðfesta einkennir framgöngu þingmanna nú en þá og segja þeir réttilega að það sé annarra en þeirra að ákveða laun sín. Píratar hafa þó reynt að skapa sér sérstöðu í von um almannahylli, tölur sýna hins vegar að fylgi þeirra minnkar milli kannanna.