27.2.2017 14:30

Mánudagur

Stundum minna fréttir á gömul viðfangsefni á vettvangi stjórnmálanna. Í dag má lesa um skýrslu frá Ríkisendurskoðun um kostnað og skilvirkni kennaramenntunar. Þar segir meðal annars:

„Frá árinu 2009, þegar kennaranám var lengt úr þremur árum í fimm, hefur mikil fækkun verið á skráðum nemendum við kennaradeildir skólanna. Nú er svo komið að háskólarnir ná ekki að brautskrá nægilega marga kennara til að viðhalda eðlilegri nýliðun í stéttinni. Kennaradeildir Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri eru einnig hvattar til leita leiða til að laða nýnema í kennaranám og til þess að auka skilvirkni í kennaranámi.“

 

Á sínum tíma sætti ég gagnrýni fyrir að beita mér ekki hratt og af nægilegri festu sem menntamálaráðherra fyrir því að lengja kennaranám í fimm ár og setja þá menntun sem skilyrði fyrir kennsluréttindum. Efasemdir mínar áttu meðal annars rætur í því sem birtist í ofangreindum orðum.

Hafi tilgangurinn með að lengja námið verið að bæta stöðu kennara til að krefjast hærri launa og festa þá þannig við kennslu virðist það ekki hafa heppnast sem skyldi. Í skýrslunni segir einnig:

„Talið er að um 60% menntaðra leikskólakennara og um helmingur menntaðra grunnskólakennara séu við kennslustörf í leik- og grunnskólum landsins. Það bendir til að kennaraskortur verði ekki eingöngu leystur með fjölgun kennaranema heldur sé einnig mikilvægt að laða menntaða kennara til starfa og hvetja þá til að halda áfram störfum innan stéttarinnar.“

Fréttir berast að því að nemendur Listaháskóla Íslands (LHÍ) uni því illa hve húsnæði skólans er illa farið. Magnús Guðmundsson skrifar forystugrein um málið í Fréttablaðið í dag og segir meðal annars:

„Ábyrgðin er auðvitað alltaf stjórnvalda og viðkomandi mennta- og menningarmálaráðherra hverju sinni. En ráðherrar hafa komið og farið á þeim árum sem þetta húsnæði hefur ekki verið í lagi þannig að auðvitað bera skólastjórnendur líka sína ábyrgð.“

Þegar LHÍ var stofnaður var gert sérstakt samkomulag milli ríkisins og félagsins að baki skólans um húsnæðismál hans, tel ég víst að það sé enn í gildi. Leit að hentugum framtíðarstað hófst og settu menn ýmis skilyrði fyrir staðnum, frægast var líklega að hann stæði ekki of langt frá kaffihúsum. Fyrir hrun var staður fyrir skólann ákveðinn við sjálfan Laugaveginn og fyrstu skref stigin vegna framkvæmda. 

Allt frumkvæði í þessu máli er hjá skólanum sjálfum að breyta því alfarið í vandamál ráðherra er flótti frá viðfangsefninu.