23.2.2017 10:30

Fimmtudagur 23. 02. 17

Í gær ræddi ég á ÍNN við Bryndísi Hagan Torfadóttur sem starfað hefur fyrir SAS frá 1. apríl 1970 og þekkir því vel þróun flugmála af eigin raun. Hér má sjá viðtalið.

Breytingarnar í flugumsvifum hér á landi eru svo miklar að í raun er ógjörningur að átta sig á þeim öllum. Árið 2016 fóru 6.821.358 farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er 40,4% aukning frá árinu 2015. Í ár spáir Ísavía að farþegarnir verði 8,75 milljónir.

Eðlilegt er að þessi stórauknu umsvif samhliða sprengingu í komu ferðamanna til landsins valdi uppnámi og menn viti ekki til fullnustu hvernig við eigi að bregðast. Minnst er vitneskjan um það líklega innan stjórnkerfisins. Hún er mest hjá þeim sem við greinina starfa. Þeir þurfa að taka sig saman og leggja fram skynsamlega stefnu á borð við það sem gerðist snemma á níunda áratugnum þegar útgerðamenn, undir forystu Kristjáns Ragnarssonar, unnu að því að knýja fram kvótakerfið við fiskveiðar.

Róbert Guðfinnsson, útgerðarmaður, hótelrekandi og athafnamaður á Siglufirði, hefur miðlað af útgerðarreynslu sinni við kynningu á æskilegri framtíðarþróun ferðamála. Hljóta sjónarmið hans hljómgrunn, eða er hann á undan samtíð sinni?

Pia Kjærsgaard, forseti danska þingsins og fyrrverandi leiðtogi Danska þjóðarflokksins (DF), er sjötug í dag. Hún stofnaði flokkinn árið 1995 en hafði áður verið í Framfaraflokki Mogens Glistrups. Árið 1999 sagði Poul Nyrup Rasmussen, forsætisráðherra Dana, að Kjærsgaard og flokkur hennar yrði aldrei stueren. Orðið er notað um hunda sem haldið utan við stássstofuna eða jafnvel heimilið. Raunin hefur orðið önnur.

Kjærsgaard og flokkur hennar hafa aldrei átt ráðherra en haft líf margra ríkisstjórna í hendi sér enda hefur hún notið meiri vinsælda danskra kjósenda en flestir samtímamenn hennar í dönskum stjórnmálum. Það er talið til marks um virðinguna sem hún nýtur að enginn gerir athugasemd við að hún býður til afmælisveislu í Kristjánsborgarhöllinni þar sem þingið er.

Poul Nyrup Rasmussen lét skammaryrðið falla vegna stefnu Piu Kjærsgaard í útlendingamálum en einmitt hún hefur verið lykillinn að sterkri stöðu DF í dönskum stjórnmálum. Vilja nú margir innan og utan Danmerkur þá Lilju kveðið hafa. Hún er sögð hrein og bein, hörð af sér í samningum en orð hennar standi eins og stafur á bók. Sem þingforseti leggi hún áherslu á að þingmenn séu trúverðugir í augum almennings og þingmenn sýni hver öðrum virðingu.