21.2.2017 12:00

Þriðjudagur 21. 02. 17

Á Facebook ræðir hópur sem kallar sig Fjölmiðlanörda ýmis mál sem snerta alla þætti fjölmiðlunar eins og nafnið gefur til kynna. Fjalar Sigurðsson hefur ritstjóravald á síðunni og birti þar í gær þessa klausu:

„Umræða um erfiða umræðu í fjölmiðlum um forræðis- og umgengnismál er eiginlega dæmd til að fara út af sporinu. Ég tók þá ákvörðun að eyða út færslu sem hingað rataði um slíkt mál. Leyfi mér í máli af þessu tagi að vera ögn kaþólskari en venjulega. Þó ekki meira en páfinn. Það skal tekið fram að innleggið var svo sem ekki óeðlileg umfjöllun um afstöðu fjölmiðils í viðkvæmu viðtali - en umræðan í kjölfarið fór strax í verulega aðrar áttir.“

Hér vísar Fjalar vafalaust til „fréttar“ sem lesa mátti á visir.is, síðu 365 fjölmiðlafyrirtækisins, en hún hafði áður birst á Stöð 2 þar sem Ólafur William Hand, fjölmiðlafulltrúi Eimskips, rekur raunir sínar í forræðismáli og hallmælti gildandi lögum og framkvæmd þeirra hjá sýslumanni. Sambærileg frásögn birtist nýlega á vefsíðunni Nútíminn en eftir birtinguna birti ritstjórn hans yfirlýsingu þar sem sagði meðal annars:

„Nútíminn harmar að hafa birt fréttina án þess að kynna sér allar hliðar málsins og biður alla hlutaðeigandi afsökunar. Samkvæmt samkomulagi staðfestu af sýslumanni hefur faðirinn notið ríkrar umgengni. Engin gögn sýna fram á umgengnistálmanir.

Af gefnu tilefni er umgengni barnsins við föður sinn nú til meðferðar hjá þar til bærum yfirvöldum og eftir því sem Nútíminn kemst næst bendir ekkert til annars en að meðferð yfirvalda byggist skýrlega á forsendum barnsins. Gögn sýna að sem lið í meðferð yfirvalda hitti Ólafur á barn sitt í síðustu viku.“

Fátt er viðkvæmara en deilur af þessu tagi. Þær snúast um djúpar tilfinningar. Ákvörðun Fjalars Sigurðssonar sem birt er hér að ofan sýnir hve erfitt er að halda utan um umræður um slík mál á fjölmiðlavettvangi.

Þetta ættu þeir sem starfa við að miðla efni til fjölmiðla og svara gagnrýni vegna þess sem þar birtist best að vita. Sé vegið að opinberum sýslunarmönnum á að sjálfsögðu að gefa þeim færi á að skýra mál sitt svo að ekki sé talað um gagnaðila í forræðisdeilu. Þetta á að gera í einni og sömu frétt og gagnrýnin er birt. Annað er í raun til marks um óvönduð eða vísvitandi hlutdræg vinnubrögð.