16.2.2017 10:00

Fimmtudagur 16. 02. 17

 

Helgi Tómasson, prófessor í tölfræði, sagði í grein í Fréttablaðinu miðvikudaginn 15. febrúar:

„Svíinn Hans Rosling, sem sumir kölluðu meistara tölfræðinnar, er nýlátinn. Hann var læknir að mennt og áhugamaður um tölfræði. Hann varð frægur fyrir ábendingar um afbakanir fjölmiðla á talnagögnum og hafði þannig meiri áhrif en margir fræðimenn á sviðinu.

Í krassandi forsíðuefni þarf helst að vera fórnarlamb og mætti stundum ætla að meirihluti mannkyns sé í því hlutverki. Dæmi um þetta eru stöðugar vitnanir í hugtakið kynbundinn launamun þar sem gefið er í skyn að gervallt kvenkynið sé fórnarlamb mismununar af völdum karla.“

Hér skulu nefnd tvo dæmi úr þessari viku um túlkun á tölfræðilegum gögnum.

Þessi gleðilega frétt birtist í einum dálki á bls. 2 í Fréttablaðinu í dag:

„Hátt í sjötíu prósent eldri borgara hafa sjaldan eða aldrei fjárhagslegar áhyggjur. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun gerði en hún sýnir að íslenskir eldri borgarar eru almennt jákvæðir og líður vel.

Meirihluti eldri borgara, eða 76 prósent, stundar líkamsrækt á hverjum degi og 76 prósent telja að heilsufar sitt sé frekar gott eða jafnvel mjög gott miðað við aldur.

Þá vekur athygli að langstærstur hluti eldri borgara, hátt í 90 prósent, þarf enga aðstoð við daglegt líf svo sem innkaup, matreiðslu og þvotta. Þá segjast 92 prósent eldri borgara ekki vilja neina frekari aðstoð frá fjölskyldumeðlimum eða öðrum nákomnum. Í könnuninni voru þó nokkrir sem svöruðu því til að ástæða þess að þeir vilja ekki frekari aðstoð frá fjölskyldumeðlimum sé sú að allir séu uppteknir.“

Fréttin af könnuninni var dapurlegri þegar hún birtist á á ruv.is 13. febrúar 2017:

„Aldraðar konur hafa fjórðungi lægri tekjur en aldraðir karlar. Um þriðjungur eldri borgara hefur fjárhagsáhyggjur og næstum 90% búa í eigin húsnæði.

Langstærstur hluti aldraðra á Íslandi býr í eigin húsnæði, eða 89%. Þá búa fjórir af hverjum fimm 88 ára og eldri í eigin húsnæði. Þriðjungur aldraðra býr einn. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun á högum eldri borgara sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir velferðarráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara. Fleiri hafa fjárhagsáhyggjur en áður. Um þriðjungur svarenda taldi sig stundum eða oft hafa fjárhagsáhyggjur. Árið 2012 höfðu 26% aldraðra sömu áhyggjur og 22% árið 2006.“