Laugardagur 11. 02. 17
Hvarvetna velta menn fyrir sér stjórnarháttum Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Erfitt er að geta sér til um nokkuð varðandi Trump. Daniel McCarthy, ritstjóri hjá ritinu American Conservative, segir í nýlegri grein að álitsgjafarnir sem sögðu óhugsandi að Trump yrði nokkru sinni forseti hamri nú á því að allt sé í hers höndum innan Hvíta hússins undir stjórn Trumps. Grein McCarthys ber fyrirsögnina: Donald Trump: Reglan að baki óreglunni. Óhefðbundinn Bandaríkjaforseti kann að vera skrefi á undan gagnrýnendum sínum.
Fyrstu skref Trumps sem forseta hafi verið betur skipulögð en kunni að virðast: hann hafi af trúmennsku framfylgt stefnu eða að minnsta kosti reist vörður sem séu bæði í anda íhaldsstefnu repúblíkana og þjóðernisstefnu hægri manna.
Að baki stefnunni um að loka Bandaríkjunum tímabundið fyrir múslimum frá sjö löndum búi tilraun til að skapa svigrúm á meðan unnið sé að þróun nýs skoðunarkerfis við landamæraeftirlit til frambúðar. Kjósendur Trumps sætti sig ekki við þau rök að kerfi sem hafi þótt við hæfi í tíð Baracks Obama eða George W. Bush hljóti að vera nógu gott. Kannanir sýni einnig að kjósendur Trumps telji hann á réttri leið í útlendingamálum hvað sem öllum mótmælum líði.
Þegar Daniel McCarthy víkur að utanríkismálum segir hann að hvað sem Trump kunni að hafa sagt um eða við erlenda þjóðarleiðtoga virðist utanríkisstefna hans rökrétt þótt hún kunni að vera áhættusöm. Hann sjái fyrir sér heim þar sem þjóðríki láti meira að sér kveða, þar sem bandamenn Bandaríkjanna í Evrópu og Asíu festi meira fé sjálfir í eigin vörnum og treysti minna á Bandaríkin. Minni ógn stafi af Rússum en Ríki íslams. Hann leggi áherslu á valdapólitík frekar en boðskap um frjálslyndi og lýðræði.
Hann hafi til þessa vakið meira umrót með orðum sínum en gjörðum. Það sé varla unnt að breyta hugsun öflugustu þjóðar heims um sjálfa sig án þess að vekja undrun og ótta. Það sé þó minni bylting að árétta gildi þjóðríkisins en að láta það hverfa. Það taki á að horfast í augu við hráar staðreyndir sögunnar eftir að hafa látið sig dreyma um allsherjar lýðræði í áratugi. Menn eigi ekki að vanmeta Trump, honum sé síður en svo alls varnað.