Þriðjudagur 07. 02. 17
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í Fréttablaðinu í morgun:
„Það er ljóst af ofansögðu að núverandi dómsmálaráðherra líður ekki fyrir tunguhaft þegar hún er beðin að tjá sig um málefni sem hún veit lítið sem ekkert um. Það er bæði gott og vont, gott vegna þess að það minnkar nauðsyn þess að þjóðin taki hana alvarlega þegar hún tjáir sig, vont vegna þess að það minnkar líkurnar á því að þjóðin geti tekið hana alvarlega þegar hún tjáir sig. Það er einnig athyglisvert að ráðuneytið skuli ekki hafa áhuga á því að afla samfélaginu annarrar tæknigetu en þeirrar sem þarf til þess að koma hælisleitendum úr landi á ruddalegan og jafnvel ofbeldisfullan hátt.“
Sé aðeins þessi kafli úr grein Kára lesinn hljóta menn að velta fyrir sér hvort Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra hafi orðið mikið á í messunni. Tilefnið er þó ekki annað en að lögreglan nýtti sér sérþekkingu erlendis við rannsóknir á lífsýnum við að upplýsa mál. Telur Kári greinilega að hagsmunum sínum vegið vegna þess.
Rannsóknir vegna sakamála eru viðkvæmt nákvæmnisverk. Enginn má fá færi á að draga í efa hæfni og áreiðanleika rannsakenda. Lögreglan hefur stigið varlega og skipulega til jarðar í rannsókn sinni á þessu máli.
Í fyrirtæki Kára búa menn yfir þekkingu til lífssýnarannsókna. Í réttarrannsóknum skiptir sérþekking og viðurkenndur áreiðanleiki vegna reynslu við slíkar rannsóknir miklu og jafnvel meiru en flest annað í augum saksóknara og dómara. Sem betur fer eru vandasöm mál á borð við það sem hér um ræðir sjaldgæf hér á landi. Af þeim sökum er bæði skynsamlegt og hagkvæmt að geta leitað eftir skjótri niðurstöðu sérfróðra og þaulreyndra aðila þótt þeir séu í öðrum löndum.
Af tilvitnuðu orðunum hér að ofan má ráða að Kári lítur til tækifæris til að þróa „tæknigetu“ innan fyrirtækis síns og reiðist að önnur sjónarmið ráði hjá lögreglu og tekur ráðherrann til bæna. Með þessu er hranalega og ómaklega að ráðherranum vegið. Sama má segja um orðin sem falla um brottflutning hælisleitenda. Lögregla fer að alþjóðareglum við framkvæmd úrskurða útlendingastofnunar við brottvísun útlendinga sem eiga ekki rétt til að dveljast hér á landi.
Grein Kára sýnir enn að umræður um alvarleg úrlausnarefni geta tekið ólíklega og einkennilega stefnu.