4.2.2017 15:00

Laugardagur 04. 02. 17

Það er undarlegt um hvað menn nenna að rífast þegar Donald Trump ber á góma. Nú hefur Sighvatur Björgvinsson, fyrrv. ráðherra, sest við tölvuna til að deila á Óla Björn Kárason, þingmann Sjálfstæðisflokksins, fyrir að andmæla fullyrðingu þingmanns Pírata um að Trump sé „fasisti“ auk þess sem Óli Björn minnti á gildandi íslensk lög um að refsivert sé að tala af óvirðingu um erlenda þjóðhöfðingja. Rifjar Sighvatur upp gamlan dóm vegna ummæla um Adolf Hitler sem „rasista“ og spyr fullur hneykslunar: „Þykir Óla Birni og öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins það hafa verið réttur dómur?“

(Eftir að é skrifaði þetta hefur Óli Björn svarað Sighvati. Þar kemur fram að Óli Björn hafi aldrei sagt að orð Píratans væru refsiverð sjá hér.)

Málflutningur af því tagi sem Sighvatur kýs að stunda dæmir sig sjálfur. Óli Björn eða aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hreinlega ekkert um þennan dóm yfir þeim sem gagnrýndi Hitler að segja. Hér á landi fella dómarar dóma en þingmenn setja lög. 

Sighvatur sat á þingi 1974–1983 og 1987–2001. Lyfti hann einhvern tíma litla fingri til að fá lögunum sem dæmt var eftir í Hitlers-málinu breytt? Það kemur ekki fram í árásargrein hans á Óla Björn vegna umræðna um Trump sem fasista. Óli Björn var kjörinn á þing 29. október 2016 en hafði áður setið þar nokkrum sinnum sem varaþingmaður.

Hér hefur oft verið sagt að taki menn til við að klína öðrum upp við nasista í rökræðum jafngildi það málefnalegri uppgjöf þess sem það gerir. Þetta á við um Sighvat Björgvinsson í þessari ómaklegu árás hans á Óla Björn Kárason vegna vísunar til laga sem gilda í landinu og giltu þau 23 ár sem Sighvatur sat á þingi án þess að hann gerði tilraun til að fá þeim breytt.

Spurning er hvort látið verði á það reyna fyrir dómstólum hvort Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, hafi gerst sek um refsiverða háttsemi með að kalla Trump „fasista“. Orð Sighvats um það efni skipta engu, aðeins dómari getur túlkað lög og komist að niðurstöðu um hvort þau hafi verið brotin.

Donald Trump stendur frammi fyrir dómsvaldinu í Bandaríkjunum. Dómarar hafa sagt ákvarðanir hans í útlendingamálum lögbrot. Andmæli forsetans kunna að vera hávær en þau breyta ekki niðurstöðu dómaranna. Bandaríkin eru réttarríki en ekki fasistaríki. Þótt kjósendur hafi veitt Trump umboð sem forseti hafa þeir ekki veitt honum alræðisvald.