25.12.2015 16:00

Föstudagur 25. 12. 15 - jóladagur

Skyldi hafa verið gerð rannsókn á ástæðum áhuga íslenskra fjölmiðlamanna á því hvað menn leggja sér til matar um jólahátíðina? Eða samanburðarrannsókn á milli landa, hvort þessi áhugi eigi aðeins við um íslenska fjölmiðlamenn eða hann setji einnig svip á miðlun upplýsinga vegna jólanna í öðrum löndum?

Ekki er nóg með að gengið sé að fólki með hljóðnemann á götum úti og spurt hvað það ætli að borða þennan eða hinn daginn heldur efna fyrirtæki einnig til kannanna til að upplýsa þetta. Fréttir af niðurstöðum þessara kannanna eru fluttar í tíma og ótíma og nú er einnig tekið til við að tengja matarvenjur við stjórnmálaskoðanir fólks.

Þetta er ekki nýmæli en áhuginn hjá fréttastofu ríkisútvarpsins virðist frekar aukast en hitt enda fellur miðlun upplýsinga af þessu tagi að þeirri þróun að fréttatímarnir snúist mest um neytendamál eða leit að einhverjum sem telja sig eiga undir högg að sækja eða vera afskiptir af hinu opinbera hvort sem er vegna styrkja eða einhvers annars.

Þetta sérkenni hinnar opinberu fréttamiðlunar er í samræmi við þá afstöðu yfirstjórnar fréttastofunnar að viðskiptafréttir eigi ekki erindi við hlustendur eða áhorfendur. Ríkisútvarpið er örugglega eini fjölmiðillinn á norðurhveli jarðar og þótt víðar væru leitað sem ekki flytur viðskiptafréttir sem endurspegla sveiflur í vexti og viðgangi samfélagsins.

Áhugi fréttastofunnar á atvinnulífinu er bundinn við kjaradeilur, einkum í aðdraganda þeirra þegar deiluaðilar leitast við að draga upp sem dramatískasta mynd í því skyni að styrkja samningsstöðu sína með mótun almenningsálitsins. Séu þær heimsslitafréttir skoðaðar er ekki skrýtið þótt fréttamenn séu næsta undrandi að samningar náist án þess að allt fari í kalda kol.

Þetta sama viðhorf: að mála skrattann á veginn, er ekki bundið við fréttastofuna í Efstaleiti, það á við alla yfirstjórn ríkisútvarpsins eins og dæmin sanna við afgreiðslu fjárlaga ár eftir ár. Þá er látið eins og allt fari í kalda kol fáist ekki allir peningar sem krafist er og helst meira. Síðan kemur í ljós að ekkert breytist nema áreiti með leiknum auglýsingum á kostnað síðasta lags fyrir fréttir – meira að segja á jóladag. Sigvaldi Júlíusson þulur sagði þó 20. desember að leiknu auglýsingarnar fæu illa í fólk, það tæki miklu betur eftir hinum lesnu.