18.12.2015 18:15

Föstudagur 18. 12. 15


Viðtal mitt á ÍNN við Sölva Sveinsson um æskuminningar hans Sauðárkróki er komið á netið og má sjá það hér 

Nýtt hefti af vefritinu Stjórnmál og stjórnsýsla er komið út. Þar birtist greinin Gæslumaður Alþingis: Breytt valdastaða forseta Íslands. Höfundar eru Björg Thorarensen prófessor við lagadeild HÍ og Stefanía Óskarsdóttir dósent við stjórnmálafræðideild HÍ. Greinina má nálgast hér.

Þarna er fjallað um efni sem tímabært er að ræða, ekki síst með tilliti til þess að forsetakosningar eru á næsta ári. Í greininni er í stuttu máli komist að þeirri niðurstöðu að í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar hafi embætti forseta þróast til annarrar áttar en ætlun hafi verið hjá stjórnarskrárgjafanum árið 1944. Þetta er réttmæt skoðun. Það var aldrei ætlunin að forseti yrði gæslumaður alþingis heldur var ákvæðið í 26. gr. stjórnarskrárinnar sett til að alþingi gæti með stuðningi þjóðarinnar varist ef þjóðhöfðinginn seildist til of mikilla valda.

Í viðtal í Spegli ríkisútvarpsins fimmtudaginn 17. desember (sem má hlusta á hér á 16. mínútu) lýsir Björg Thorarensen efni greinarinnar í hnotskurn og gagnrýnir afskipti Ólafs Ragnars af hugmyndum um breytingar á stjórnarskránni. Hann þolir ekki þá tilhugsun að 26. gr. stjórnarskrárinnar verði breytt og mótuð leið til að almenningur geti knúið á um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hvarvetna er.

Í upphafi greinarinnar segir: „Fyrir nokkrum áratugum færði franski stjórnmálafræðingurinn, Maurice Duverger (1980), rök fyrir því að auk þingræðis og forsetaræðis væri annar stjórnskipulegur valkostur til staðar í lýðræðisríkjum. Hann nefndi þennan valkost forsetaþingræði og taldi þá stjórnskipun sem komst á í Frakklandi 1958 dæmi um það.“

Í niðurstöðukafla greinarinnar segir: „Þótt forseti Íslands sé formlega annar handhafi framkvæmdarvalds ásamt ráðherra samkvæmt stjórnarskrá hefur ekki verið komið á tvískiptingu framkvæmdarvaldsins í anda kenninga um forsetaþingræði sem gera ráð fyrir forseta með umtalsverð völd.“

Að fræðimenn í lögfræði og stjórnmálafræði telji ástæðu til að árétta þennan grunnþátt íslenska stjórnkerfisins undir lok 20 ára forsetaferils Ólafs Ragnars Grímssonar sýnir að nú er nóg komið.

Hvort sem Ólafur Ragnar gefur oftar kost á sér eða ekki er óhjákvæmilegt fyrir stjórnarskrárgjafann, alþingi, að marka forsetaembættinu skýrara hlutverk og setja ákvæði um hvernig unnt er að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um mál án þess að það sé háð geðþótta eins manns.

ttur