12.12.2015 19:30

Laugardagur 12. 12. 15

Miðvikudaginn 9. desember ræddi ég um bókina Utangarðs? Ferðalag til fortíðar  við höfundana Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur í þætti mínum á. Má sjá hann hér.

Um klukkan 18.30 bárust þau tíðindi frá loftslagsráðstefnunni í París að 195 ríki hefðu náð sögulegu samkomulagi sem skyldar í fyrsta sinn næstum öll ríki veraldar til að draga úr útblæstri í því skyni að sporna gegn hættulegum afleiðingum loftslagsbreytinga. Markmiðið er að tryggja að hlýnun jarðar haldist að meðaltali innan við 2°C og helst innan við 1,5°C.

Umræðunum lauk með því að Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakka, spurði ráðherrana í fundarsalnum í Bourget, úthverfi Parísar, hvort einhver væri andvígur samkomulaginu. Enginn gaf sig fram og sló Fabius þá fundarstjórahamrinum í borðið og lýsti umræðum lokið með orðunum: „Parísar-samkomulagið er samþykkt!“ Braust þá út mikið lófatak í salnum og fundarmenn risu fagnandi úr sætum sínum.

„Verði samkomulaginu hrundið í framkvæmd mun það knýja fyrirtæki og einstaklinga til að draga mjög úr notkun á jarðefnaeldsneyti og gæti boðað breytingu á heimsbúskapnum,“ sagði í frétt blaðsins The Wall Street Journal.

Nú taka við umræður sérfræðinga og álitsgjafa um efni samkomulagsins. Ef reynslan af fyrri samningum um þetta er til leiðsagnar má vænta þess að allir verði ekki jafnhrifnir af samkomulaginu og þeir sem fögnuðu því í fundarsalnum stóra í Bourget. Nú er það skylda þjóðþinga að taka afstöðu til samkomulagsins og lögfesta leið þjóðar sinnar að markmiðinu sem þar er sett.

Yfirlýsingar sem falla í tilefni af samkomulaginu eru á þann veg að með því megi bjarga jörðinni frá eyðingu, hvorki meira né minna.

Í dag endursýndi ríkissjónvarpið myndin Tíu milljónir sem Stephen Emmott, prófessor við Cambridge-háskóla í Bretlandi, gerði um „framtíð okkar á jörðu“ eins og segir í kynningunni. Ef marka má spá hans breytir niðurstaðan í París engu – jörðin er dauðadæmd. Séu umsagnir um myndina skoðaðar á netinu sést að margir andmæla hinum harða dómi prófessorsins – sem betur fer.