10.12.2015 16:00

Fimmtudagur 10. 12. 15

Það er til marks um hve umræður um farand- og flóttafólk hafa breyst hér á landi og annars staðar að í janúar 2013 vöktu eftirfarandi ummæli Kristínar Völundardóttur, forstjóra útlendingastofnunar, hneykslan ef ekki reiði margra sem hlustuðu á þau í fréttum ríkisútvarpsins 17. Janúar 2013:

„Það getur verið dálítið aðlaðandi fyrir fólk sem að er ekki beinlínis hælisleitendur, sem ætla að vinna ólöglega eða koma í öðrum tilgangi, að koma til Íslands. Þetta getur verið fýsilegur kostur, að fá frítt fæði og húsnæði þegar málsmeðferðin er svona hrikalega löng.“ 

Á ruv.is segir einnig þennan sama dag:

„Kristín segir vísbendingar um að fólk komi hingað og stundi það sem kallist asylum shopping eða ferðamenn í hælisleit. 

„Þá er fólk bara að fara til útlanda og kynnast landi og þjóð og nýti sér þá þjónustu sem hælisleitendum stendur til boða.““

Þarna vísar Kristín til farandfólks sem veit í raun að aldrei verður unnt að viðurkenna það sem flóttafólk vegna alþjóðlegra og evrópskra reglna sem gilda um réttindi flóttamanna og vernd þeirra. Gegn þessu farandfólki hefur verið snúist af miklum þunga hvarvetna í Evrópu undanfarin misseri, einkum fólki sem kemur frá Balkanlöndunum (þar með Albaníu).

Í nágrannalöndum okkar, Noregi og Svíþjóð, hefur verið gripið til eftirlits á innri landamærum Norðurlanda sem ekki hefur þekkst áratugum saman, enn er það bundið við þá sem eru í langferðabílum, lestum eða ferjum. Þetta er gert til að stemma stigu við straumi aðkomufólks til landanna. Markmiðið er m.a. að þeim sem ekki hafa rétt til frjálsrar farar innan EES-svæðisins og koma frá „öruggum löndum“ eins og Albaníu sé tafarlaust snúið til síns heima. Á þennan hátt er dregið úr líkum á asylum shopping.

Samhliða þessu hafa Bretar sett sér það markmið í viðræðum um nýja ESB-aðildarskilmála að takmarka rétt þeirra sem hafa ferðafrelsi innan EES til félagslegra bóta. David Cameron forsætisráðherra kynnti kröfur Breta um þetta efni á fundi með Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, í dag. Szydlo sagðist viðurkenna fullveldisrétt Breta til ákvarðana um eigin velferðarmál en virða yrði grunnregluna um frjálsa för EES-borgara – þetta tvennt yrði að falla saman á viðunandi hátt.

Ummæli Kristínar Völundardóttur voru tímabær viðvörun fyrir þremur árum. Nú er reglum breytt eða framkvæmd þeirra hert í Evrópu til að útiloka hættuna á misnotkun á þessu sviði.