4.12.2015 19:00

Föstudagur 04. 12. 15

Danskir álitsgjafar segja að úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Danmörku fimmtudaginn 3. desember þar sem kjósendur voru spurðir hvort þeir vildu afmá fyrirvara á aðild Dana að ESB beri með sér mikið vantraust í garð forsætisráðherra landsins og allra þeirra stjórnmálamanna sem vildu að kjósendur settu kross við já á kjörseðlinum.

Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra boðaði til atkvæðagreiðslunnar fyrir nokkrum mánuðum þegar kannanir sýndu að um 54% kjósenda vildu afmá fyrirvarana. Niðurstaðan varð þveröfug, 53,1% kjósenda sagði nei.

Danski þjóðarflokkurinn (DF) var helsti andstæðingur stefnu forsætisráðherrans (Venstre) og forystumanna Jafnaðarmannaflokksins. DF stendur nú með pálmann í höndunum og er stöðu forsætisráðherrans lýst á þann veg að DF sé einskonar slitastjórn yfir honum – það er undir stuðningi DF komið hvort ríkisstjórnin situr áfram.

Árið 2000 gengu Danir til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort þeir ættu að taka upp evru og höfnuðu því. Háttsettur danskur stjórnmálamaður innan Venstre sem barðist þá fyrir því að kjósendur segðu já við evrunni sagði mér nokkrum árum síðar að sér hefði liðið illa vegna þátttöku sinnar í já-baráttunni. Að ganga til atkvæðagreiðslu um málið hefði verið vitleysa frá upphafi til enda og enginn sannfæring búið að baki hjá sér og mörgum öðrum sem af flokksnauðsyn tóku þátt í baráttunni. Hann mundi aldrei gera þetta aftur.

Mér varð hugsað til þessara orða nú. Margir innan raða Venstre hljóta að hafa efasemdir um ágæti dómgreindar forsætisráðherrans eftir útreiðina núna. Enginn neyddi hann til að leggja málið undir atkvæði þjóðarinnar. Hann taldi sér hins vegar trú um að hann hefði meirihlutann í hendi. Lars Løkke skjátlaðist hrapallega og skal því spáð að dagar hans sem forystumanns Venstre og forsætisráðherra séu taldir, spurningin er hvenær og við hvaða aðstæður hann hættir.

Sigurvegari atkvæðagreiðslunnar í hópi stjórnmálamanna er Kristian Thulesen Dahl, formaður DF. Minnt er á að hann hafi nú leitt flokk sinn til sigurs í þrennum kosningum í röð og hann eigi nú 37 menn á danska þinginu. Thulesen Dahl vildi ekki að flokkur sinn settist í ríkisstjórn að loknum þingkosningum en flokkurinn heldur ríkisstjórninni á floti og forsætisráðherrann getur ekkert hreyft sig gagnvart ESB án samþykkis hans.

DF er ekki lengur neinn jaðarflokkur í Danmörku. Hann gegnir lykilhlutverki eins og Framfaraflokkurinn í Noregi og Finnaflokkurinn í Finnlandi. Framgangur flokkanna og vald í krafti atkvæðamagns endurspeglar lykilbreytingu í norrænum stjórnmálum.