1.12.2015 17:15

Þriðjudagur 01. 12. 15

Vladimír Pútin Rússlandsforseti átti á liðnu sumri varla nógu hæðnisleg orð til að lýsa máttleysi Vesturlanda í Úkraínudeilunni þar sem þau birtust í viðskiptaþvingunum, tilgangs- og áhrifalausum að hans mati. Reiði hans vegna þvingananna bitnaði hins vegar þungt á okkur Íslendingum þegar Pútín bannaði kaup Rússa á íslenskum sjávarafurðum og setti þannig strik í um 70 ára viðskiptasögu Íslendinga og Rússa.

Hinn 24. nóvember skutu Tyrkir niður rússneska orrustuþotu sem þeir sögðu hafa farið inn í lofthelgi Tyrklands. Rússar ákváðu að svara ekki með hervaldi heldur gripu til þess ráðs sem þeir töldu skaða Tyrki mest, viðskiptaþvingana! Leiguflaug með rússneska ferðamenn til Tyrklands hefur verið bannað en margar milljónir Rússa heimsækja tyrkneskar baðstrendur ár hvert og var talið að þeim mundi fjölga þegar Rússar hættu að fara í sólarferðir til Egyptalands af ótta við hryðjuverk eftir að 224 fórust vegna sprengju um borð rússneskri farþegaþotu. Rússar hafa einnig ákveðið að leggja aðra steina í götu viðskipta við Tyrki sem er önnur stærsta viðskiptaþjóð þeirra á eftir Kínverjum.

Bæði Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti og Pútín voru í París í gær á hinni miklu loftslagsráðstefnu. Pútín tilkynnti hins vegar að „tæknilegar ástæður“ kæmu í veg fyrir að hann væri á „fjölskyldumynd“ 150 fyrirmenna sem sóttu ráðstefnuna og sæti hádegisverðarboð við upphaf hennar. Með því að forðast þessa viðburði komst Pútín hjá því að sýna Erdogan þá hefðbundnu kurteisi að heilsa honum með handabandi. Þarf ekki að efast um að Pútín telji þetta hafa stórpólitíska þýðingu og lækki rostann í Tyrkjum.

Hér á landi hafa ýmsir orðið til að hallmæla samstöðu íslenskra stjórnvalda með ríkjunum sem beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna yfirgangsins í Úkraínu, var jafnvel gefið til kynna að þessi samstaða kostaði þjóðarbúið tæpa 40 milljarða króna á ári! Allt reyndist það ofreiknað í Morgunblaðinu var á dögunum nefnd talan 600 m. kr.

Danir ganga á fimmtudaginn til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort falla eigi frá fyrirvörum sem þeir hafa haft gagnvart ESB vegna samstarfs í löggæslu- og réttarfarsmálum. Þegar Lars Løkke Rasmussen boðaði til atkvæðagreiðslunnar sögðust 58% ætla að segja já. Nú segjast 34% ætla að segja já en 38% nei – andstaðan er mest í aldurshópnum 18 til 35 ára: 23% já, 41% nei, 30% óákveðnir.