Miðvikudagur 26. 08. 15
Í dag ræddi ég við Kristrúnu Heimisdóttur lögfræðing í þætti mínum á ÍNN. Þáttur verður frumsýndur klukkan 20.00 kvöld.
Hér hefur undanfarna tvo daga verið gagnrýnt að lagt skuli til að fella orðin hælisleitandi og hæli úr íslensku lagamáli eins og gert er í drögum að frumvarpi að nýjum útlendingalögum sem nú eru til kynningar á vefsíðu innanríkisráðuneytisins.
Í Frakklandi og annars staðar er rætt um hvort nota eigi orðin migrants eða refugiés – það er farandmenneða flóttamenn. Í Le Monde segir að Al-Jazirasjónvarpsstöðin í Qatar hafi tilkynnt hinn 20. ágúst að framvegis yrði aðeins notað orðið refugié þegar fjallað væri um fólksstrauminn yfir Miðjarðarhaf. Í skýringu stöðvarinnar sagði:
„Safnheitið „farandmenn“ dugar ekki lengur þegar fjallað er um hina hörmulegu atburði á Miðjarðarhafi. Það hefur ekki lengur sömu merkingu og lýst er í orðabókum, í því felast nú fordómar sem draga úr mannúð og stuðla að fjarlægð. […] Orðið kæfir rödd þeirra sem þjást.“
Í Le Monde er bent á að í alþjóðalögum og Genfarsáttmála frá 1951 um flóttamenn sem 145 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna (SÞ) hafa fullgilt sé hugtakið „flóttamaður“ skilgreint, þar sé um að ræða einstakling sem hafi fengið hæli í þriðja ríki. Einstaklingurinn verði að sanna fyrir yfirvöldum móttökuríkisins að sér sé ógnað í heimaríki hans. Flóttamannastofnun SÞ telur ekki nauðsynlegt að hver og einn sanni eigin hættu þegar lífshætta í heimalandinu sé öllum augljós.
Allir flóttamenn eru farandmenn en allir farandmenn eru ekki flóttamenn. Þeir sem leggja af stað til annarra landa í leit að betri lífskjörum ganga undir heitinu „efnahagslegir farandmenn“. Þessi síðastnefndi hópur veldur einkum pólitískum deilum í mörgum löndum. Flóttamannastofnun SÞ notar hugtökin „farandmenn“ og „flóttamenn“ saman þegar svo ber undir og sama má segja um Amnesty International og Human Rights Watch. Í samræmi við þetta er sagt að „þar til í dag hafa 292.000 flóttamenn og farandmenn komið sjóleiðis til Evrópu á árinu 2015“.
Hælisleitandi er farandmaður sem hefur lagt fram beiðni um hæli í þriðja landi. Hann breytist í flóttamann þegar hælisvist er samþykkt. Að fella hæli úr lagamálinu er reist á viðleitni til að skapa grátt svæði – slíkt kallar ávallt á vandræði.