25.8.2015 18:40

Þriðjudagur 25. 08. 15

Í gær var birt niðurstaða nefndar á vegum innanríkisráðuneytisins sem hefur unnið að endurskoðun á útlendingalögunum og meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að það beri að fella niður orðið hælisleitandi úr íslensku lagamáli. Því er meðal annars borið við að þetta sé gert að erlendri fyrirmynd. Hér skal dregið í efa að erlendis eða í ESB-rétti séu áform um að þurrka út hið gamalgróna orð asyl sem er hæli eða griðastaður á íslensku. Hvers vegna í ósköpunum skyldi orðið þurrkað út úr lögum? Fyrir því eru einfaldlega engin efnisleg rök.

Útlendingalög hér á landi taka mið af alþjóðasamningum. Vegna aðildarinnar að Schengen-samstarfinu og EES-samningnum móta þessir samningar inntak löggjafarinnar hér. Útlendingamál, farandfólk og stórfjölgun hælisleitenda setja mjög mark sitt á umræður innan allra Schengen- og EES-ríkja um þessar mundir.

Þýskaland hefur komist í brennidepil umræðnanna undanfarna sólarhringa vegna vaxandi spennu innan lands þar sem mótmælaalda rís gegn hinum mikla fjölda fólks sem streymir skilríkja- og réttindalaus til landsins – talið er að alls verði þetta milli 800 og 900 þúsund manns í ár. „Þýskaland er segull fyrir flóttamenn,“ segir í Frankfurter Allgemeine Zeitung og að þetta megi meðal annars rekja til galla á útlendinga- og hælislöggjöfinni þar sem skilin milli þeirra sem beri að veita aðstoð og hinna sem hafa ekki þörf fyrir hana hafi horfið.

Innan ráðandi ríkja í ESB Þýskalands, Bretlands og Frakklands vex þeirri skoðun fylgi dag frá degi að herða beri reglur til að sporna við straumi ólöglegra innflytjenda. Augljóst er að þetta mun einnig hafa áhrif á Schengen-samstarfið þar sem ríki vilja herða eftirlit á landamærum sínum og skerpa reglur um heimild til þess.

Í ljósi þessara umræðna má segja að niðurstaða útlendingalaganefndarinnar hafi varla getað komið fram á óheppilegri tíma hér á landi ef í henni felst að slaka á kröfum og gera skilyrði vegna hælisleitenda og afgreiðslu umsókna þeirra óljósari.