21.8.2015 19:00

Föstudagur 21. 08. 15

Viðtal mitt við Kristján Daníelsson, forstjóra Kynnisferða, á ÍNN má sjá hér.

Á liðnum vetri var tekist á um frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á makríl. Þar var gert ráð fyrir að til sögunnar kæmi viðbótarveiðigjald á makríl sem næmi 10 kr. á hvert kíló. Þessu andmæltu útflytjendur á makríl meðal annars með þeim rökum að erfiðlega hefði gengið að fá greitt fyrir makríl í Rússlandi. Mætti rekja það til erfiðs efnahagsástands í landinu, gengishruns rúblunnar, lækkandi olíuverðs, átakanna í Úkraínu og viðskiptaþvingana vegna þeirra. Frumvarpið náði ekki fram að ganga.

Á vefsíðunni Eyjunni birtist hinn 31. mars 2015 viðtal við Hermann Stefánsson, framkvæmdastjóra Icelandic Pelagic dótturfyrirtækis Skinneyjar Þinganess. Hann sagði vissulega rétt að erfiðleikar hefðu verið í Rússlandi. „Það kemur örugglega niður á öllum sem eru að vinna á Rússlandsmarkaði, þeir erfiðleikar. Þeir eru að glíma við sömu vandamál og við 2008, hrun gjaldmiðilsins og þeir sem eru að flytja út þangað hafa fundið fyrir því.“

Hermann taldi einhverja milljarða hafa verið útistandandi vegna makríls haustið 2014 en það hefði gengið verulega á þær upphæðir. „Markaðslega“ væri næsta makrílvertíð „í fullkominni óvissu“. Mögulega þyrfti því að leita nýrra markaða, í Afríku eða Kína, svo dæmi væri tekin. „Rússland er hins vegar sá markaður sem hefur dregið vagninn í verði, þeir hafa alltaf borgað hæst verð fyrir makríl. Ef að Rússland verður ekki stór „player“ í makríl mun það hafa áhrif á öðrum mörkuðum. Það er ekki ólíklegt að verð fari lækkandi ef staðan verður þá eins og hún er í dag,“ sagði hann.

Í viðtali sem birtist á kvotinn.is hinn 12. júní 2015 sagði Hermann að „ágætir möguleikar“ væru á útflutningi til landa í Afríku, eins og verið hefði síðustu ár, og þá einkum til Nígeríu. Hinn 10. ágúst 2015 sagði Hermann við Morgunblaðið að þrátt fyrir að ekki hefði verið selt út til Rússlands í vikunni þar á undan hefði sala verið góð í júlí. Fyrirtækið yrði vart við aukinn áhuga viðskiptavina sinna og vilja þeirra til þess að kaupa eins mikið og hægt væri sem fyrst ef til viðskiptabanns kæmi.

Er þetta ekki hið raunsæja mat? Er ekki skynsamlegt að það ráði för í þessu máli í stað upphrópana?