9.8.2015 17:00

Sunnudagur 09. 08. 15

Í dag læt ég lokið umræðum hér á síðunni – í bili að minnsta kosti – um sölu á makríl eða réttara sagt um vandræðin við sölu á makríl vegna þess að æ erfiðara verður að átta sig á hinu rétta í málinu – það er hvort Rússar hafi yfirleitt sett nokkurt innflutningsbann á íslenskan makríl eða hvers vegna.

Á vefsíðunni ruv.is má í dag lesa endursögn á viðtali við kunnáttumann um Rússlandsmarkað fyrir makríl, Teit Gylfason sölustjóra hjá Iceland Seafood. Hann segir að fréttatilkynning frá ESB hinn 27. júlí hafi „komið málinu af stað“. Þar sé Ísland talið með ríkjum sem hafi framlengt viðskiptabann gagnvart Rússum til loka janúar 2016. Minnt er á að í fyrra hafi Rússar ekki sett innflutningsbann á vörur frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Nú hafi Ísland hins vegar orðið „áberandi“ í umræðunni um viðskiptabannið. Þá segir á ruv.is:

„Teitur segir Rússa túlka það sem aukinn þrýsting af hálfu Íslands að landið sé sérstaklega nefnt í fréttatilkynningunni, þó að engin breyting á afstöðu íslenskra stjórnvalda felist í henni.

Viðskiptaþvinganirnar gegn Rússum beinast aðallega gegn fjármálastofnunum tengdum ríkisstjórninni og sölu hergagna. Þetta snertir Ísland lítið. Íslendingar sluppu við innflutningsbann Rússa í fyrra en það gæti breyst.

Ríkisstjórn Rússlands hefur skipað nefnd, sem forsætisráðherrann Dmitry Medvedev stýrir, sem fer yfir löndin sem birtust í umræddri fréttatilkynningu. Þýðir þetta að Rússar taki málið alvarlegar en áður?

Teitur segir það allavega gagnvart þeim löndum sem birst hafi í fréttatilkynningunni og þeir hefðu ekki veitt athygli áður.“

Er þetta rétt skýring hjá Teiti? Að Rússar átti sig fyrst núna á að Íslendingar eigi aðild að viðskiptabanni vegna fréttatilkynningar frá ESB? Hefur nafn Íslands aldrei fyrr birst í slíkri tilkynningu? Var það gert nú með samþykki íslenska utanríkisráðuneytisins? Vildi ráðuneytið auka þrýsting á Rússa?

Íslendingar eiga samleið með þeim sem fordæma yfirgang Rússa í Úkraínu. Hins vegar er óþarft að láta ESB hampa þeirri andstöðu sérstaklega. ESB tekur varla ákvarðanir um það efni einhliða heldur í samráði við viðkomandi ríki – eða hvað? Því ber utanríkisráðuneytinu að svara afdráttarlaust sé tilkynning ESB jafn örlagarík og lýst er hér að ofan.