6.8.2015 20:20

Fimmtudagur 06. 08. 15

Merkilegt er að sjá að þeir sem hafa beina hagsmuni af því að veiða og selja makríl láta mun meira til sín heyra núna um utanríkismál en þegar tekist var á um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í aðildarmálinu hékk á spýtunni hvort Íslendingar gætu veitt þann makríl sem þeir hafa aflað síðan 2006 og talinn er um 120 milljarða króna virði til og með vertíðarinnar árið 2014. Ef aðild að ESB hefði komið til sögunnar hefði afli Íslendinga verið skorinn niður um að minnsta kosti 80%.  Aflaverðmætið væri um 20 milljarðar króna.

Á árum ESB-viðræðnanna heyrðist lítið sem ekkert í talsmönnum útgerðarmanna og fiskverkenda um hættuna af ESB-aðild. Nú er hins vegar krafist umpólunnar á utanríkisstefnunni af því að óvíst er um sölu afurða eftir eina makríl-vertíð vegna hótana Kremlverja. Þess er krafist að „lúffað“ sé fyrir þeim þrátt fyrir yfirgang þeirra gagnvart Úkraínumönnum og hótanir í garð Finna og Eystrasaltsþjóðanna.

Rússar eru ekki einu neytendur makríls – Úkraínumenn hafa einnig neytt hans. Í heimi sem þarfnast próteins er makríll gulls ígildi utan Rússlands sem innan. Hvers vegna skyldu þeir sem hafa heimild til að veiða makríl ekki geta fundið aðra markaði en í Rússlandi? Á að láta aðra fá veiðiheimildarnar?

Á sínum tíma barðist SÍS harkalega fyrir viðskiptum við Sovétríkin. Framsóknarflokkurinn brást illa við á stjórnmálavettvangi væri vegið að þessum viðskiptum. Gagnrýni á Sovétmenn átti að vera hófstillt – á þeim árum innlimuðu þeir þó ekki hluta annarra ríkja eða herjuðu innan landamæra þeirra eins og Rússar gera núna.

Íslendingar eiga samleið með þjóðunum sem hafa brugðist við yfirgangi rússneskra stjórnvalda með refsiaðgerðum. Ætli Rússar að bæta gráu ofan á svart með því að setja innflutningsbann á Ísland og sex önnur ríki utan ESB er við rússnesk yfirvöld að sakast en ekki íslensk. Þeir sem sætta sig ekki við bannið eiga að beina spjótum að ráðamönnum í Moskvu en ekki Reykjavík – nema þeir styðji málstað Rússa.