27.3.2015 19:15

Föstudagur 27. 03. 15

Hjörtur E. Guðmundsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, skrifar athyglisverðan pistil í blaðið í morgun þar sem hann vekur máls á hróplegum tvískinnungi í málflutningi í ESB-málinu bæði á stjórnmála- og fjölmiðlavettvangi. Hann segir:

„Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi þess efnis að þjóðaratkvæði fari fram næsta haust um framhald umsóknarferlisins að Evrópusambandinu. Þetta væri kannski ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að efni þingsályktunartillögunnar á sér enga stoð í stefnu flokkanna fyrir síðustu þingkosningar að Pírötum undanskildum.

Raunar var sú leið sem kynnt er til sögunnar í þingsályktunartillögunni beinlínis afskrifuð af Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Vinstrihreyfingunni - grænu framboði fyrir síðustu kosningar. Í tilfelli VG var hliðstæðri tillögu við þingsályktunartillögu flokkanna nú beinlínis hafnað af landsfundi flokksins. Þess í stað var samþykkt að umsóknarferlið héldi áfram og því sett ákveðin tímamörk.

Eðlilega hlýtur sú spurning að vakna hvort hér séu ekki á ferðinni svik við kjósendur samkvæmt kokkabókum stjórnarandstöðuformannanna? Líkt og þeir hafa sakað Sjálfstæðisflokkinn um, og eftir atvikum Framsóknarflokkinn, fyrir að halda ekki þjóðaratkvæði um örlög Evrópusambandsumsóknarinnar. Þingsályktunartillagan gerir jú ráð fyrir að málið verði sett í farveg sem vinstriflokkarnir sögðu kjósendum fyrir síðustu kosningar að yrði ekki gert fyrir þeirra tilstuðlan.

Sá grundvallarmunur er þó á að ásakanir í garð Sjálfstæðisflokksins snúa ekki að þeirri stefnu sem landsfundur flokksins samþykkti í aðdraganda síðustu þingkosninga. Þar er skýrt kveðið á um að umsóknarferlinu að Evrópusambandinu verði hætt. Ásakanirnar snúa einungis að ummælum einstaka frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar sem samrýmdust ekki ályktun landsfundar. Þingsályktun vinstriflokkanna gengur hins vegar bæði þvert á ummæli frambjóðenda flokkanna og kosningastefnu þeirra.“

Það er í raun stórmerkilegt að brigslin um loforðasvik eru aðeins höfð uppi gagnvart einstaklingum í forystusveit ríkisstjórnarflokkanna. Þegar þrír stjórnmálaflokkar ganga á bak kosningastefnu sinnar og flytja tillögu til þingsályktunar sem gengur þvert gegn henni segja hinir pólitísku siðapostular og álitsgjafar flokkanna ekki neitt.

Hvar eru allir stjórnmálafræðingarnir sem fréttamenn ríkisins kalla jafnan á vettvang? Er hlutverk þeirra aðeins að úrskurða um kosningasvik þegar það er talið gagnast ESB-málstaðnum?