24.3.2015 17:15

Þriðjudagur 24. 03. 15

Miðvikudaginn 18. mars lögðu formenn stjórnarandstöðuflokkanna fram eftirfarandi tillögu til þingsályktunar á alþingi:

„Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla 26. september 2015 um hvort halda skuli áfram aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið.

Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni: 

„Vilt þú að Ísland taki upp þráðinn í viðræðum við Evrópusambandið með það að markmiði að gera aðildarsamning sem borinn yrði undir þjóðina til samþykktar eða synjunar?

        Já.

        Nei.“

Í dag stóð stjórnarandstaðan fyrir furðulegri ádeilu á þingforseta á alþingi fyrir að hafa ákveðið að setja þessa tillögu á dagskrá þingsins þriðjudaginn 14. apríl. Var látið eins og í því fælist einhver móðgun við flutningsmenn. Hér er þó um hreina sýndartillögu að ræða, móðgun við almenning. Þetta er enn einn blekkingarleikur ESB-flokkanna. Hvergi er í greinargerð tillögunnar reifað hvernig flokkarnir ætla að taka upp þráðinn þar sem Össur Skarphéðinsson umsóknarráðherra skildi við hann í janúar 2013. Össur komst ekki lengra vegna efnislegs ágreinings við ESB um landbúnaðarmál og sjávarútvegsmál.

Hver sá stjórnmálamaður sem vill ganga til þess verks að hefja að nýju viðræður við ESB verður að kynna hvað hann vill í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur treysti sér ekki til að leggja fyrir ESB-menn samningsmarkmið sín í landbúnaðarmálum og ESB-menn vildu ekki sýna á spil sín í sjávarútvegsmálum – þeir vildu vita um raunverulegt samningsmarkmið þeirra íslensku stjórnmálamanna sem sögðust vilja kíkja í pakka ESB. Ríkisstjórnin hélt að sér höndum af því að hún vissi að afsala yrði Íslendingum ráðum yfir 200 mílunum og flökkustofnum (síld, loðnu og makríl) til að sjá á spil ESB.

Af umræðum á alþingi í dag má ráða að stjórnarandstaðan óttast að ESB muni einhvern næstu daga svara bréfi utanríkisráðherra frá 12. mars um að Ísland verði máð af lista um ESB-umsóknarríki. Tillagan sé flutt til að slá ryki í augu einhverra í Brussel. Stjórnarandstaðan reyndi áður að blekkja forseta ESB-þingsins með kvörtunarbréfi til hans þar sem íslenskri stjórnskipan var ranglega lýst. Skýri stjórnarandstaðan ekki hvernig hún ætlar að taka upp þráðinn þar sem Össur skildi við hann gefur hún ESB-mönnum frítt spil. Til þess er leikurinn enn einu sinni gerður.