14.3.2015 17:15

Laugardagur 14. 03. 15

Þáttur minn á ÍNN frá miðvikudegi 11. mars þar sem ég ræddi við Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu er kominn á netið og má sjá hann hér.

Afflutningur á staðreyndum hefur frá upphafi verið einkenni á málflutningi þeirra sem mæla með aðild Íslands að Evrópusambandinu. Ekki hefur staðið steinn yfir steini í málflutningnum þegar grannt er skoðað og á tímum ESB-viðræðnanna var látið eins og allt væri í himnalagi þótt þær hefðu ekki haggast frá vori 2011 vegna ágreinings um sjávarútvegsmál. Nú felst þessi afflutningur í slagorði frá Já Íslandi í auglýsingum þar sem kynnt eru til sögunnar orðin lýðræði og gerræði og látið að því liggja að utanríkisráðherra hafi beitt gerræðislegum aðferðum til að fótum troða lýðræðið þegar hann afhenti starfsbróöur sínum í Lettlandi bréf fimmtudaginn 12. mars og lýsti Ísland ekki lengur umsóknarríki gagnvart ESB.

Skrautleg atburðarás hefur síðan orðið hér og í Brussel þar sem þeir taka sér helst fyrir hendur að túlka bréf utanríkisráðherra sem virðast ekki hafa lesið það. Hér má lesa um þennan þátt málsins.

Að utanríkisráðherra afhendi bréf til að skýra alkunna afstöðu ríkisstjórnar feli í sér gerræði er fráleitt. Þeir sem hafa of- eða rangtúlkað gildi þessa gjörnings ættu að biðja þjóðina afsökunar vilji þeir halda stöðu sinni sem marktækir álitsgjafar eða stjórnmálamenn. Talsmaður stækkunardeildar ESB lýsti boðleiðum bréfs af þessu tagi innan stjórnkerfis ESB en forsætisráðherra segir í samtali við Eyjuna að við gerð bréfsins hafi verið samráð við embættismenn ESB. Í Brussel hefur bréfið því ekki komið neinum á óvart sem sýslar með íslensk málefni.

Erlendis líta álitsgjafar á þetta á þann veg sem gera ber – það hafi orðið formleg þáttaskil í samskiptum ESB og Íslands. Var ekki seinna vænna miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar. Á vefsíðu þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle birtist á ensku athyglisverð grein eftir Christoph Hasselbach í tilefni af bréfi utanríkisráðherra og hefur hún verið þýdd á íslensku á Eyjunni eins og sjá má hér. Augljóst er að innan ESB leggja menn dýpri merkingu í þessa ákvörðun íslensku ríkisstjórnarinnar en ýmsir hér á landi sem telja hana engu skipta.