20.9.2014 19:00

Laugardagur 20. o9. 14

Viðtal mitt við Daða Kolbeinsson óbóleikara um sjálfstæðisatkvæðagreiðsluna í Skotlandi sem birtist á ÍNN miðvikudaginn 17. september er komið á netið og má sjá það hér.

Sjötta og lokagrein mín um skosku atkvæðagreiðsluna birtist í Morgunblaðinu í dag. Spá þeirra sem sögðu að í Westminster mundu menn taka að deila um hvernig færa ætti meiri völd til Skota hefur ræst. David Cameron, forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, vill hraðferð við gerð lagafrumvarps sem kynnt verði í janúar. Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, vill fara sér hægar. Hann á þó mikilla hagsmuna í gæta í Skotlandi og þar líta menn á allan hægagang við gerð tillagna um aukna heimastjórn Skota sem svik.

Gordon Brown er þingmaður fyrir Skota og hann segir að tafarlaust verði að kynna tillögur um aukna heimastjórn. Greinilegur ágreiningur er í áherslum forystumanna Verkamannaflokksins. Íhaldsmenn telja sér í hag að ýta undir hann. Stjórnmálabaráttan hefur tekið á sig hefðbundinn svip í Bretlandi.

Í dag var Doors Open Day í Glasgow. Þá er almenningi frjálst að skoða ýmsar byggingar sem annars eru lokaðar. Við fórum á nokkra slíka staði. Til dæmis í höfuðstöðvar Clydeport sem eru við ána Clyde en höfnin í Glasgow má muna sinn fífil fegri. Hún var áður lífæð borgarinnar og fyrir kol og járngrýti auk þess miklar skipasmíðastöðvar voru við Clyde. Um allt þetta mátti fræðast í hinum gömlu höfuðstöðvum Clydeport sem nú hafa verið friðaðar og hafa að geyma minjar um glæsileika og mikið ríkidæmi.

Dómhúsið Glasgow sem hýsir High Court var einnig opið og var almenningi frjálst að ganga um nokkra dómsali en þeir eru fjölmargir í húsinu. Þar skammt frá er gamli fiskmarkaður borgarinnar sem kallast nú The Briggait og hýsir listasmiðjur. Kirkjunni St. Andrews in the Square hefur verið breytt í menningar- og veitingahús. Í stað kirkjubekkja innan dyra var  slegið upp borðum fyrir brúðkaupsveislu.

Gamla dómkirkjan The Cathedral á rætur allt aftur til 1197 og hún hefur verið miðstöð kristinnar tilbeiðslu í borginni allt frá dögum St. Kentigern sem talinn er hafa lagt grunn að Glasgow. Sagt er að hún sé glæsilegasta bygging í Skotlandi frá 13. öld.