10.9.2014 19:40

Miðvikudagur 10. 09. 14

Í dag ræddi ég við Þóru Hallsdórsdóttur á ÍNN  um qi gong. Samtalið má sjá kl. 20.00 og síðan á tveggja tíma fresti til kl. 18.00 á morgun.

Ritstjórn DV er í lamasessi. Hún ætti að upplýsa baksvið lekamálsins og hvaða hlutverki Jón Bjarki Magnússon blaðamaður hefur gegnt í því öllu. Hann stillti sér á sínum tíma upp sem ljóðalesari á baráttufundi No Borders-samtakanna í Reykjavík. Samtökin helga sig baráttu gegn stjórnvöldum í þágu hælisleitenda. Þegar vakið var máls á þessu hér á þessum stað lét Reynir Traustason lögfræðing sinn hóta mér málsókn. Þegar ný stjórn DV vildi að úttekt yrði gerð á ritstjórn blaðsins fór allt á annan endann. Hvers vegna? Þola rannsóknarblaðamenn ekki rannsókn annarra.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hefur hlaupið inn í tómarúmið sem myndaðist við fréttaflutning af lekamálinu eftir að uppnámið hófst á DV. Gerðist þetta strax að kvöldi 9. september eftir að innanríkisráðherra hafði birt svar sitt til umboðsmanns alþingis. Þá tók fréttastofa ríkisins til við spunafréttamennsku sem miðar að því að sanna að Hanna Birna Kristjánsdóttir hafi farið með rangt mál þegar hún segi „að Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi ekki getað haft nein efnisleg áhrif á rannsókn lekamálsins heldur hafi hún verið í höndum ríkissaksóknara“ svo að vitnað sé í ruv.is hinn 10. september.

Fréttastofan vitnar í Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara sem segir að embætti sitt  „sé almennt yfir rannsóknum“ en hvað lekamálið varði hafi  lögreglustjóranum verið „gefin fyrirmæli um rannsóknina“. Rannsókn á kæru hælisleitandans Tony Omos hafi farið „fram í samráði við ríkissaksóknara“. Framkvæmd rannsóknarinnar hafi síðan verið „í höndum lögreglu líkt og lög gera ráð fyrir“.  Þá vitnar fréttastofa í nafnlausa „lögspekinga“, eins og hún orðar það, spuna sínum til stuðnings. Í skjóli nafnleyndar veitast þessir spekingar að Hönnu Birnu.

Einkennilegt er að fréttastofan skuli í þessum spuna alveg líta framhjá 23 blaðsíðna bréfi umboðsmanns alþingis frá 25. ágúst til innanríkisráðherra en Hanna Birna svaraði því hinn 9. september. Í bréfi umboðsmanns kemur hvað eftir annað fram að innanríkisráðherra gat ekki gefið nein fyrirmæli um rannsóknina og þar er einnig (bls. 4) birt efni úr bréfi ríkissaksóknara til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 7. febrúar 2014 þar sem lögreglustjóranum er send „til veiðeigandi meðferðar“ kæra og sérstaklega tilgreint hvaða gagna lögregla skuli afla en áréttað að ekkert skuli gert nema „í samráði við ríkissaksóknara“.

Eitt helsta einkenni spunans í fréttum af þessu sérkennilega máli er að líta aldrei á það í heild heldur aðeins grípa einhverjar tætlur sem spunaliðarnir sjálfir slíta úr málinu og gera að aðalatriði þá og þá stundina.