1.9.2014 20:20

Mánudagur 01. 09. 14

Miðað við heiftina í umræðunum um Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins, hafa vafalaust ýmsir talið víst að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði fylgi í ágúst. Í ríkisútvarpinu var í kvöld upplýst að hið gagnstæða hefði gerst. Fylgi flokksins hefði þvert á móti aukist lítillega, það er um 0,5 stig í 28%.

Í umræðunum um lekamálið hefur markvisst verið unnið að því að draga fjöður yfir tilefnið sem að baki því býr. Til að rifja það upp má meðal annars benda á þessa frétt í ríkisútvarpinu frá 20. nóvember 2013: http://www.ruv.is/frett/haelisleitandi-grunadur-um-mansal. Hún hefst á þessum orðum:

„Lögreglan leitar enn hælisleitanda sem senda átti úr landi í gær. Útlendingastofnun synjaði manninum um hæli en hann hefur dvalist hér á landi í um tvö ár. Maðurinn er grunaður um aðild að mansali.

Lögmaður mannsins fullyrðir að umbjóðandi sinni, Tony Omos eigi von á barni með nígerískri konu hér á landi og því ætti ekki að stía þeim í sundur. Konan er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um einu og hálfu ári. Nokkrar þeirra voru vanfærar og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.“

Í dag skrifaði ég pistil í tilefni af leiðtogafundi NATO nú í vikunni og má lesa hann hér.