30.8.2014 20:30

Laugardagur 30. 08. 14

Þegar DV er í lamasessi vegna hjaðningavíga í eigendahópi blaðsins og frétta af ótrúlegri framgöngu Reynis Traustasonar ritstjóra tekur fréttastofa ríkisútvarpsins að sér að halda lífi í lekamálinu. Í kvöldfréttum sjónvarps var sagt að einhverjir ónafngreindir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hefðu fyllst efasemdum um framtíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í ráðherrastóli og á þingi vegna frásagna í bréfi umboðsmanns alþingis af samtali hans við Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, um tvo fundi lögreglustjórans með Hönnu Birnu þar sem lögreglurannsókn vegna lekamálsins bar á góma.

Bréf umboðsmanns er 23 bls. að lengd og er þetta þriðja bréf hans til innanríkisráðherra eftir að umboðsmaður ákvað að eigin frumkvæði að kanna samskipti þeirra Hönnu Birnu og Stefáns Eiríkssonar. Umboðsmaður hóf athugun sína eftir að samskiptin voru komin í hámæli vegna leka um þau úr stjórnkerfinu. Ekki kemur fram að umboðsmaður sé að kanna þann leka heldur hvort farið hafi verið að reglum, lögbundnum og óskráðum, í samskiptum ráðherrans og lögreglustjórans í máli sem var hvorki formlega til úrlausnar í innanríkisráðuneytinu né á forræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu.

Af hinu langa bréfi umboðsmanns má ráða að hann leggur lykkju á leið sína til að rökstyðja aðkomu sína að málinu. Fyrir hefur komið að umboðsmaður smíðar reglu sem öðrum var áður ókunn til að koma með aðfinnslur við ráðherra. Hér sýnist hann ætla að teygja sig langt vaki fyrir honum að skrifa skýrslu til alþingis um þetta mál og hlut Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í því. Stjórnarandstaðan býst greinilega við að hún fái þar efnivið til að magna andstöðu við Hönnu Birnu. Píratar hafa frestað eða fallið frá áformum um vantraust á Hönnu Birnu og Ögmundur Jónasson, formaður eftirlits- og stjórnskipunarnefndar, ætlar ekki að setja málið á dagskrá nefndarinnar fyrr en að fenginni niðurstöðu umboðsmanns. Spurning er hvort þingmennirnir hafi á bakvið tjöldin fengið ábendingu frá umboðsmanni um að bíða.

Í hinu langa bréfi umboðsmanns kemur fram að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins hafði samband við ríkissaksóknara til að forvitnast um gang rannsóknarinnar. Ríkissaksóknari sagði ráðuneytisstjóranum að honum kæmi þetta ekkert við og skyldi ekki spyrja sig neins. Segir umboðsmaður að hann sjái ekki ástæðu til að fjalla frekar um þessi samskipti. Spurning vaknar hvers vegna Stefán Eiríksson sagði ekki hið sama við Hönnu Birnu. – Hún spurði hvort honum þætti óþægilegt að hún forvitnaðist um gang málsins eða léti í ljós álit sitt á því. Lögreglustjórinn hefði getað sagt já, hún ætti ekki að ræða málið við sig. Hann gerði það ekki enda leit hann réttilega þannig á að málið væri ekki á sínu forræði heldur ríkissaksóknara.