Mánudagur 24. 08. 14
Þeir sem fylgst hafa með fjölmiðlastarfsemi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar vita að þar er ekki allt sem sýnist. Hann átti Fréttablaðið til dæmis með leynd í tæpt ár á meðan það þjónaði viðskiptahagsmunum hans. Notaði hann það meðal annars í pólitískum tilgangi í því skyni að koma Samfylkingunni til valda í þingkosningunum vorið 2003. Þau áform runnu út í sandinn. Nú ríkir nokkur hula yfir raunverulegu eignarhaldi á 365 miðlum en Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs, er ráðandi hluthafi, ef marka má fréttir.
Innan fjölmiðlafyrirtækja ríkir almennt mikil leyndarhyggja þegar kemur að þeim sjálfum. Öðru hverju er þó unnt að skyggnast á bakvið tjöldin, einkum við mannaskipti. Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrv. blaðafulltrúi Baugs, var nýlega ráðin útgáfustjóri 365 og létti undir með nýráðnum forstjóra sem á að leiða fyrirtækið inn í síma- og fjarskiptarekstur.
Í dag var efnt til nokkurra mínútna fundar með starfsmönnum til að tilkynna þeim að Mikael Torfason hefði látið af störfum sem aðalritstjóri, aðalmaður í útgáfu- og fjölmiðlastarfsemi 365, og Kristín tekið af honum – að minnsta kosti tímabundið enda væri ætlunin að auka hlut kvenna í ritstjórnarstörfum. Tvíræðar fréttir bárust um örlög Ólafs Þ. Stephensens ritstjóra. Einhverjir þóttust vita að hann hefði viljað hætta en ekki fengið það – uppsögn hans hefði verið hafnað! Á vefsíðu 365 miðla visir.is segir fremur stuttaralega: „Ekki liggur fyrir hvert hlutverk Ólafs Stephensen, ritstjóra fréttastofunnar, verður í kjölfar breytinganna.“
Þá var upplýst að Sigurjón Magnús Egilsson yrði fréttastjóri hjá 365 miðlum. Leiðir hans og Jóns Ásgeirs hafa áður legið saman eins og lesa má í bók minni Rosabaugur yfir Íslandi. Sinnti Sigurjón Magnús ýmsum viðkvæmum verkefnum fyrir Baugsmenn á uppgangstíma þeirra og gekk rösklega fram í vörn þeirra í fjölmiðlum þegar Baugsmálið bar hæst.
Fjölmiðlasaga Jóns Ásgeirs er ekki á enda runnin og skrautlegar sviptingar halda áfram. Á sínum tíma glímdu þeir Sigurjón Magnús og Reynir Traustason um ráðin yfir DV. Enn berjast huldumenn um þann miðil og Sigurður G. Guðjónsson hrl. kemur þar enn við sögu.