18.8.2014 20:00

Mánudagur 18. 08. 14

Stóryrt viðbrögð Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar, vegna ákvörðunar Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að segja sig frá verkefnum vegna lekamálsins svonefnda vekja undrun. Flokksformaðurinn sagði á Facebook síðu sinni laugardaginn 16. ágúst:

„Í beiðninni um að víkja sem ráðherra dómsmála felst síðbúin viðurkenning Hönnu Birnu á því að henni var ávallt ófært að sitja sem yfirmaður lögreglumála á sama tíma og beinn undirmaður hennar var að rannsaka hana og hennar persónulegu aðstoðarmenn. Hún neitaði að víkja sæti á meðan á lögreglurannsókn stóð og gekk svo langt að ræða rannsóknina á henni og pólitískum aðstoðarmönnum hennar við lögreglustjórann.

Það er misbeiting opinbers valds af verstu sort og brýtur skýrt gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga.“

Í hinum tilvitnuðu orðum gætir þess misskilnings að Hanna Birna hafi afsalað sér stjórn lögreglumála, hún nefndi dómsmál og málefni ákæruvaldsins. Hún situr áfram sem yfirmaður lögreglumála. Að leiðtogi stjórnarandstöðunnar sýni aðgæsluleysi í gagnrýni sinni á þann hátt sem Árni Páll gerir í ummælum sínum um þennan þátt málsins er með ólíkindum.  

Að fullyrða að Hanna Birna hafi misbeitt valdi sínu með því að ræða við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu er innistæðulaus staðhæfing þar til Árni Páll Árnason færir haldbær rök fyrir henni. Telur hann að saksóknari hefði ákveðið að ákæra í máli sem reist er á lögreglurannsókn ef fyrir liggur að rannsóknin sé þeim annmarka háð að innanríkisráðherra hafi misbeitt valdi sínu vegna rannsóknarinnar?

Hvernig braut Hanna Birna gegn hæfisreglum stjórnsýslulaga? Af hverju spyr enginn fjölmiðill formann Samfylkingarinnar hvað hann hafi fyrir sér?

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Árni Páll Árnason gengur fram fyrir skjöldu með innistæðulausar yfirlýsingar í alvörumáli. Fyrir fyrir átta árum fullyrtu þeir Árni Páll og Jón Baldvin Hannibalsson að símar þeirra hefðu verið hleraðir þegar þeir störfuðu í utanríkisráðuneytinu – þar hefðu innlendir aðilar verið að verki. Sérstökum saksóknara var falið að rannsaka málið og komst hann að þeirri niðurstöðu að ekkert lægi fyrir sem sannaði þessar ásakanir.