Fimmtudagur 14. 08. 12
Hér hefur þeirri skoðun áður verið hreyft að ríkisútvarpið hafi þróast í þá átt að verða miðill á skjön við meginstrauma í samfélaginu. Nýjar stoðir að baki þeirri skoðun birtust í dagblöðum í morgun þar sem sagt var frá ákvörðun Þrastar Helgasonar, dagskrárstjóra rásar 1, að fella morgunbæn, morgunandakt og kristileg orð kvöldsins af dagskrá rásarinnar. Rökin eru að hann sé á móti stuttum „uppbrotum“ í dagskránni og fáir hafi hlustað á þetta efni, sjá hér um þetta á Evrópuvaktinni.
Þegar gengið var til „þjóðaratkvæðagreiðslu“ um efnisatriði í nýrri stjórnarskrá kom það mörgum í opna skjöldu að skýr meirihluti vildi að ákvæði um þjóðkirkju yrðu áfram í stjórnarskránni. Tilraun til að „afhelga“ hana mistókst hrapallega.
Ákvörðun hins nýja dagskrárstjóra um að fella þessa fárra mínútna þætti af rás 1 er í andstöðu við viljann sem birtist þegar gengið var til atkvæða um þjóðkirkjuna. Dagskrárstjórinn nýtur hins vegar stuðnings hjá talsmönnum Vantrúar, félags trúleysingja, sem hafa um langt árabil barist gegn kristni og kirkju. Sindri Guðjónsson, formaður Vantrúar, segir í dag á visir.is:
„Við fögnum þessu og okkur finnst þetta mjög gott mál. Þjóðskipulag á að vera veraldlegt og það er ekki hlutverk ríkisins að vera með útvarpsstöð sem sér um trúarþarfir fólks og bænahald. Það er alls ekki eðlilegt og það er mjög jákvætt að þetta hætti. Menn geta beðið eins og þeim sýnist á eigin vegum, en ekki á kostnað almennings, skattgreiðenda og annarra sem kunna að vera annarra skoðanna.“
Áhugi stjórnenda ríkisútvarpsins á að skipa sér á skjön við meginstrauma samfélagsins er einkennilegur en á meðal annars rætur að rekja til þess að þeir vita sem er að ríkisútvarpið nýtur lögbundinna tekna.