9.8.2014 17:20

Laugardagur 09. 08. 14

Dr. Piotr Marek Jaworski hagfræðikennari við Napier-háskóla í Edinborg, höfuðstað Skotlands, segir við norsku vefsíðuna ABC-nyheter í dag að kjósi Skotar sjálfstæði hinn 18. september nk. eigi þeir að taka upp norska krónu. Hún falli best að atvinnugreinum í Skotlandi.

Alls búa 5,3 milljónir manna í Skotlandi (5,1 m í Noregi). Af fiskeldi á Bretlandseyjum er 83% stundað í Skotlandi, 87% af sjávarafla í Bretlandi veiðist í Skotlandi og skoska stjórnin segist hafa ráð yfir 98,8% af olíuauðlindum Breta.

Fyrsta sjónvarpseingvígið fyrir atkvæðagreiðsluna hinn 18. september var háð nú í vikunn. Þar fór Alex Salmond, leiðtogi skoskra þjóðernissinna, halloka fyrir Alistair Darling, talsmanni sambands við England. Salmond gat ekki kynnt trúverðuga stefnu um gjaldmiðil Skota neiti Bretar þeim að nota sterlingspundið áfram verði sjálfstæði samþykkt.

Skotar munu eiga mikið undir tekjum af olíu að fengnu sjálfstæði. Sambærilegar tekjur ráða úrslitum í þjóðarbúskap Norðmanna. Englendingar tapa olíutekjum við sjálfstæði Skotlands og hagkerfi þeirra tekur á sig nýja mynd.

Jaworski segir að hagsveiflan í Englandi mundi laga sig að því sem gerist innan ESB en hagsveiflan í Skotlandi líkjast þeirri norsku. ABC-nyheter minna á að þeirri skoðun hafi verið hreyft á Íslandi eftir hrunið árið 2008 að taka ætti upp norska krónu eins og Jawroski vilji að Skotar geri verði þeir sjálfstæðir. Jawroski segir að við klofning Tékkóslóvakíu í Tékkland og Slóvakíu hafi stjórnmálamenn viljað halda tékknesku krónunni sem sameiginlegri mynt en frá því hafi verið horfið eftir að ríkin höfðu verið sjálfstæð í þrjá mánuði vegna þess hve hagkerfin reyndust ólík þegar á reyndi.

Eins og kunnugt er reyndist umræðan um upptöku norskrar krónu ekki langlíf hér á landi. Nú hefur þeirri furðulegu tillögu verið hreyft að Ísland verði fylki í Noregi og látið er eins og Íslendingar hafi einhvern tíma búið í slíku fylki. Það er alrangt. Ísland var sambandsland Noregs með samning við norska kónginn, „ein heild út af fyrir sig, jafnsnjallt Noregi í öllum greinum“ eins og það var orðað í áliti á þjóðfundinum 1851.