Fimmtudagur 07. 08. 14
Mál þróast oft á hinn einkennilegasta hátt þeim mun lengur og meira sem þau eru rædd. Nú er „lekamálið“ tekið að snúast um hvort ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi gengist undir siðareglur sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur setti sér á árinu 2011, fyrst ríkisstjórna á Íslandi. Reglurnar gilda aðeins fyrir viðkomandi ríkisstjórn og líkjast þannig stjórnarsáttmála hennar enda segir í stjórnarráðslögunum: „Forsætisráðherra staðfestir siðareglur fyrir ráðherra ríkisstjórnar sinnar í kjölfar samráðs á ráðherrafundi.“
Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni starfaði í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur undir formennsku Jóns Ólafssonar prófessors og hann var í dag kominn í kvöldfréttir ríkisútvarpsins til að skýra frá því að hann hefði vakið athygli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar á mikilvægi nefndarinnar án þess að fá viðbrögð frá ráðherranum.
Umboðsmaður alþingis gegnir hlutverki eftirlitsmanns á grundvelli regluverksins þar sem ekki þótti ástæða til að setja á laggirnar sérstaka úrskurðar- eða eftirlitsnefnd sem hluta af því. Við athugun á „lekamálinu“ og útgáfu álits vegna þess verður umboðsmaður að styðjast við reglur nema hann kjósi að smíða þær á staðnum sem er ósanngjarnt og óheppilegt; fellur alls ekki að reglum um góða stjórnsýsluhætti. Umboðsmanni finnst nauðsynlegt að átta sig á hvort siðareglur gildi um núverandi ríkisstjórn og spyr þess vegna forsætisráðherra að því.
Af orðalagi stjórnarráðslaganna og bréfi umboðsmanns til forsætisráðherra má ráða að ekki hvílir nein lagaskylda til að setja ráðherrum siðareglur og þeir eru ekki bundnir af reglum fyrri ríkisstjórnar nema um það sé tekin formleg ákvörðun að höfðu samráði forsætisráðherra við einstaka ráðherra, slík ákvörðun hefur ekki verið tekin af núverandi forsætisráðherra.
Stjórnarráð Íslands hafði starfað í tæp 110 ár áður en siðareglur um ráðherra komu til sögunnar. Þær voru settar um svipað leyti og mesta aðför var gerð að stjórnarráðinu í sögu þess með því meðal annars að leggja niður sérstakt dómsmálaráðuneyti. Hér skal fullyrt að eyðileggingin sem fylgdi aðför ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að stjórnarráðinu skiptir meira máli vilji menn skoða stjórnsýslulega veikleika tengda „lekamálinu“ en að siðareglur hafi ekki verið staðfestar af forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar sem settist að völdum vorið 2013.