3.1.2014 22:15

Föstudagur 03. 01. 14

Ríkisútvarpið leggur sig fram um að finna snögga bletti á áramótaboðskap forsætisráðherra og forseta. Í fyrstu atrennu var snúið út úr ræðu ráðherrans og Gylfi Arnþórsson, forseti ASÍ, tók að sér að gagnrýna útúrsnúninginn. Um það var fjallað hér.

Þá var Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði við HÍ, kallaður í fréttatíma til að lýsa því sem goðsögn að þjóðin stæði saman um stórmál og draga þar með í efa réttmæti orða forseta um gildi sátta í samfélaginu. Á ruv.is fimmtudaginn 2. janúar stendur:

„Það er grundvallarhugmynd þjóðernishyggjunnar að leggja áherslu á þjóðarsátt. Þetta segir Guðmundur Hálfdanarson sagnfræðingur sem segir það ekki rétt hjá forseta Íslands að samstaða hafi ríkt á meðal þjóðarinnar um marga af stærstu sigrum hennar.“

Í dag leitaði ríkisútvarpið til Kristins Schrams, forstöðumanns Rannsóknaseturs um Norðurslóðir, til að slá varnagla vegna orða forseta um lykilstöðu Íslands á norðurslóðum. Til dæmis væru veður válynd er haft eftir honum á ruv.is og meðal annars af þeim sökum sæju tryggingafélög sér ekki fært að tryggja starfsemi þar. Kristinn sagði mikilvægt að jafnvægi væri í umræðunni milli auðlindanýtingar og verndunar náttúrunnar. Hann hefur að sögn ríkisútvarpsins kynnt sér muninn á almennri umræðu fyrir og eftir hrun og á ruv.is segir hann:

„Við þurfum að gæta þess að mikla ekki fyrir okkur stöðu okkar og getu bæði á sviði heimsmála og eins á þessum sviðum. Nú er til dæmis svolítið sérstakt að forsetinn nefnir sérstaklega tiltekin verkefni eins og heimshöfn í Finnafirði, sem er eins og er bara á hugmyndastigi og að mörgu leyti áhugavert að þetta sé svona ofarlega í umræðunni eins og er. En ég held að almennt þurfum við að gæta okkar á að fá ekki einhvers konar glýju í augun með tilliti til efnahagsþróunar á norðurslóðum, við höfum brennt okkur á því áður.“

Á milli línanna erum við minnt á að Ólafur Ragnar hafi farið fram úr sér með stórkallalegum yfirlýsingum um útrásarvíkingana og hann kunni sér líklega ekki heldur hóf núna.

Á dögunum vakti ég máls á því hvort ekki þyrfti að huga að reglum til tryggja friðhelgi einkalífsins gegn drónum á Íslandi. Þetta myndband af mbl.is áréttar nauðsyn þess að það sé gert.