13.11.2012 20:30

Þriðjudagur 13. 11. 12

Íslensk málnefnd efndi til þings í dag í Þjóðmenningarhúsinu um íslensku í tölvuheiminum. Augljóst er að gera verður átak til að treysta stöðu tungunnar á stafrænni öld. Á þinginu voru hins vegar kynnt tvö ný verkefni sem eru til þessa fallin: Nýr íslenskur talgervill sem Kristinn Halldór Einarsson, formaður Blindrafélagsins, kynnti en félagið hefur staðið að gerð hans fyrir 85 m. kr. með samningi við pólska félagið Ivona. Þá kynntu Jón Guðnason, lektor við HR, og Trausti Kristjánsson, frumkvöðull og aðjunkt í HR, talgreini fyrir íslensku en þeir hafa unnið að gerð hans í samvinnu við Google.

Íslensk málnefnd heiðraði ofangreinda menn fyrir framlag þeirra í þágu máltækni og var fróðlegt að kynnast þeim í lýsingu þeirra. Bæði snúast um að tengja tölvur eða snjallsíma og talað mál. Verkefni Blindrafélagsins snýst um að breyta rituðu máli í talað mál. Talgreini verkefnið snýst um að unnt sé að tala við snjallsíma eða tölvu. Á þinginu talaði Trausti við Google í símanum og sagði: Þjóðmenningarhúsið, Google leitaði og kom með rétta niðurstöðu.

Á þinginu var kynnt ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012. Þar er sagt frá Evrópuverkefninu META-NET frá árinu 2011 sem Eiríkur Rögnvaldsson kom að fyrir Íslands hönd en það var viðamikil könnun á 30 tungumálum og niðurstaðan sýnir að 21 þeirra eiga „stafrænan dauða“ á hættu. „Íslenska er eitt þessara tungumála – stendur raunar næstverst að af vígi af málunum 30,“ segir í ályktuninni en þar er jafnframt bent á að síðan hafi staða íslenskunnar „skánað aðeins“ vegna talgervils Blindrafélagsins og talgreiningarinnar í samvinnu við Google.

Mér kom á óvart að Apple leggur ekki lengur sömu rækt við íslensku og áður. Á sínum tíma þegar ég kom að þessum málum sem menntamálaráðherra beitti ég þeim rökum gagnvart Microsoft að þar á bæ yrðu menn að íslenska forrit til að halda í við Apple. Nú er Apple-kerfið lokað fyrir talgervli Blindrafélagsins! Þá er ekki síður undarlegt að í nýlegri könnun kom fram að 70 skólastjórar af 170 í skólum landsins sögðu „það ekki vera opinbera stefnu skóla síns að íslenskt notendaviðmót væir á tölvum sem nemendur hefur aðgang að.“

Vissulega er nauðsynlegt að leggja fé af mörkum til að forða íslenskri tungu frá „stafrænum dauða“, hitt er þó ekki síður brýnt að unnið sé að því að styrkja stöðu tungunnar í þessum heimi með úrræðum sem eru ókeypis hafi menn áhuga á að nýta þau.

Í dag opnaði Jakob F. Ásgeirsson, rithöfundur og ritstjóri Þjóðmála, prófkjörsskrifstofu sína en hann óskar eftir 5. sæti á lista sjálfstæðismanna í Reykjavík og er vel að því kominn.