22.12.2011 19:05

Fimmtudagur 22. 12. 11

Eins og ég hef áður sagt frá hér á síðunni var Sigurður Már Jónsson blaðamaður gestur minn á ÍNN hinn 14. desember og má samtal okkar hér en við ræddum bók Sigurðar Más: Icesave samningarnir – afleikur aldarinnar? Að óreyndu hefði mátt ætla að félagar höfundarins úr blaðamannastétt fögnuðu því að einn úr þeirra hópi ritaði bók um málefni líðandi stundar.

Við Háskóla Íslands  starfar  Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála undir forstöðu Ástu Möller, fyrrverandi alþingismanns. Stofnunin gefur út vefritið Stjórnmál og stjórnsýsla. Þar birtast greinar og umsagnir um bækur. Síðasta hefti tímaritsins sá dagsins ljós 20. desember og má nálgast það hér. Vek ég athygli á eigin umsögn í ritinu um bók Tómasar Inga Olrichs Ísland og ESB en umsögnina má lesa hér.

Allt er þetta aðdragandi að því sem ég ætlaði að ræða en það er umsögn Svavars Halldórssonar, fréttamanns á RÚV, um bók Sigurðar Más en umsögnina má lesa hér.

Umsögnin er ekki rituð af vinsemd eins og sést til dæmis þegar Svavar segir:

„Hvers vegna er til að mynda ekki rætt við aðalsamningamanninn Svavar Gestsson eða fjármálaráðherrann Steingrím J. Sigfússon? Þess í stað setur höfundur sig í stellingar alviturs skáldsagna - höfundar og gerir þeim upp hugsanir og tilgang. Vel kann að vera, og jafnvel líklegt, að hann hitti naglann á höfuðið í þeim ágiskunum. Það breytir því hins vegar ekki að þetta eru ágiskanir.“

Þegar þessi ummæli eru lesin vaknar spurning um hvort Svavar Halldórsson hafi lesið bókina á enda því að  undir lok hennar segir Sigurður Már frá því að hann hafi náð sambandi við Svavar Gestsson sem neitaði hreinlega að ræða málið vegna efasemda um að tímabært væri að fjalla um það „svo hatrömm væri umræðan“.


 


Í samtali okkar Sigurðar Más á ÍNN sagði hann að Svavar Gestsson hefði bent sér á eigin þátt á sömu stöð vildi hann fá sína afstöðu til Icesave-málsins. Steingrímur J. lét einfaldlega ekki svo lítið að sinna viðtalsbeiðni Sigurðar Más. Skyldi Svavar Halldórsson telja að Sigurður Már hafi átt að falla frá áformum um að ljúka við bók sína vegna vandkvæða við að ná samtali við Steingrím J. og Svavar Gestsson? Láta þá ráða hvort bókin sæi dagsins ljós? Ef rannsóknarblaðamennska byggðist á slíkum sjónarmiðum yrði lítið í hana varið. Þá er fráleitt að ekki sé unnt að draga upp heildarmynd af gangi máls og nýta til þess opinberar heimildir. Það reyndi ég við ritun bókar minnar um Baugsmálið, Rosabaugur yfir Íslandi. Svavar Halldórsson segir að lítið fari „fyrir þeim uppljóstrunum sem búast mætti við í samræmi við“ yfirlýsingar á bókarkápu. Alltaf er dálítið skrýtið þegar gagnrýnendur festa sig við eitthvað sem segir á bókarkápu og nota það gegn höfundi bókar.  Þá segir Svavar Halldórsson:

 „Sjálfur er ritdómari vel kunnugur Icesave málinu frá upphafi. Undirritaður tók þátt í umfangsmikilli rannsókn í samvinnu við hérlendar og bandarískar háskólastofnanir og fræðimenn. Þar voru meðal annars skráðar og innihaldsgreindar allar fréttir, aðsendar greinar og ritstjórnarefni í stóru, íslensku fjölmiðlunum frá 1. janúar til 6. mars 2010.“

Segir hann frá tölfræðilegum niðurstöðum þessara rannsókna. Að mínu mati er slík tölfræði minna virði en mat á því sem fram kemur í þessum fréttum. Rannsóknir mínar vegna Rosabaugsins leiddu til dæmis í ljós hlutdrægni sem á ekkert skylt við fjölda frétta heldur ræðst af efnistökum í fréttum. Svavar Halldórsson segir að frumniðurstöður bendi „til þess að nokkur munur sé á nálgun fjölmiðlanna á Icesave málið“. Hann segir þó ekkert um í hverju þessi munur felist. Þeir sem hlustuðu á RÚV, en Svavar Halldórsson saknar þess að vísað sé til frétta þess, efuðust aldrei um að þar drægju menn taum þeirra sem léku afleikinn mikla. Fréttirnar breyta engu um afleikinn þótt þær séu margar. Miklu nær er að rannsaka hvers vegna þær voru fluttar eða hvers vegna var einkum leitað til álitsgjafa sem studdu málstað ríkisstjórnarinnar. Bók Sigurðar Más snýst ekki um rannsókn á þessum þætti málsins.

Af umsögn Svavars Halldórssonar má álykta að Sigurður Má hafi gefið sér niðurstöðu fyrirfram án þess að geta sannað hana með heimildum. Í niðurlagi bókar sinnar slær Sigurður Már varnagla vegna þessa. Hann leggur verk sitt að sjálfsögðu í dóm lesenda. Mín skoðun er að þeir lesi almennt bókina með öðrum gleraugum en Svavar Halldórsson sem sest á of háan hest án þess að hafa þó þrek til að benda á nokkuð sem sýni að Sigurður Már hafi rangt fyrir sér.