20.12.2011

Þriðjudagur 20. 12. 11

Í dag mótmælti ég á Evrópuvaktinni að Össuri Skarphéðinssyni eða Árna Páli Árnasyni yrði falin ábyrgð á vörn Íslands fyrir EFTA-dómstólnum vegna Icesave-málsins. Rök mín fyrir því má lesa hér.

Meirihluti utanríkismálanefndar alþingis vildi ekki að Össuri yrði falin pólitísk forsjá málsins. Ríkisstjórnin ákvað hins vegar að svo skyldi vera, sagði í raun að utanríkismálanefnd ætti ekki að skipta sér af þessu, ríkisstjórnin hefði ákveðið þetta sl. vetur auk þess sem reglugerð um stjórnarráðið gerði ráð fyrir forsjá utanríkisráðuneytisins. Spyrja má af þessu tilefni til hvers Árni Þór Sigurðsson tók þetta fyrir í nefndinni. Hvaða tilgangi hafði það ef ekki til að fara að ráðum hennar?

Núverandi stjórnarflokkar gerðu veður út af því eftir kosningar 2003 að ekki hefði verið rætt við utanríkismálanefnd á fullnægjandi hátt í mars 2003 um að ríkisstjórnin lýsti stuðningi við innrásina í Írak.  Íraksstríðinu er lokið engu að síður hefur utanríkismálanefnd til skamms tíma haft málið á sinni könnu til að rannaska hinar tæplega níu ára gömlu ákvarðanir. Heiður þjóðar, þings og utanríkismálanefndar séu í húfi.

Nú þegar nefndin kemur saman til að ræða mál sem snertir lífshagsmuni Íslands segir utanríkisráðherra að nefndinni komi ekkert við hvernig haldið sé á málinu. Hinn einstæði atburður hefur gerst að utanríkisráðherra segist ætla að hafa bókun meirihluta utanríkismálanefndar að engu. Nýr meirihluti gegn honum hefur myndast í nefndinni. Loks sýnir það enn undirlægjuhátt Árna Þórs Sigurðssonar, formanns utanríkismálanefndar alþingis, gagnvart ríkisstjórninni að hann tekur ekki upp hanskann fyrir meirihluta nefndar sinnar heldur situr þegjandi undir yfirlýsingum Össurar um að nefndin hafi ekkert um það að segja hvernig haldið er á þessu brýna hagsmunamáli þar sem tugir ef ekki hundruð milljarða eru í húfi. Árna Þór finnst hins vegar sjálfsagt að gæta virðingar nefndarinnar vegna þess sem gerðist í mars 2003, annars kunni framkvæmdavaldið að grafa undan valdi alþingis.

Að haldið skuli á Icesave-málinu á þennan hátt af hálfu ríkisstjórnarinnar kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Það er eins líklegt að ráðherrar og þeir sem stóðu með henni í utanríkismálanefnd telji það jafnvel eigin til styrktar að Íslendingar tapi málinu fyrir EFTA-dómstólnum. Þeir hafa alla jafna verið á öndverðum meiði við meirihluta þjóðarinnar í málinu.