25.6.2011

Laugardagur 25. 06. 11.

Leiðtogar ESB ríkjanna tóku ákvarðanir sem snerta okkur Íslendinga sem Schengen-þjóð á fundi sínum í Brussel 23. og 24. júní.

Í fyrsta lagi féllust þeir ekki á tillögu frá framkvæmdastjórn ESB um breytingu á því ákvæði Dublin-reglnanna un hælisleitendur sem snýr að því hvar eigi að afgreiða umsókn þeirra um hæli á Schengen-svæðinu. Það ber áfram að gera í því ríki þar sem koma fyrst inn á svæðið. Vegna vandræða Grikkja við afgreiðslu hælisumsókna hefur mannréttindadómstóll Evrópu sagt að ómannúðlegt sé að endursenda hælisleitendur þangað til að fá mál sín afgreidd. 47.000 hælisleitendur eiga umsóknir sínar óafgreiddar í Grikklandi.

Í öðru lagi samþykktu leiðtogarnir að Schengen-ríki hefðu heimild til að taka upp vegabréfaeftirlit á innri landamærum Schengen-svæðisins ef eftirlitskerfi á ytri landamærunum dygði ekki vegna sérstakra aðstæðna eins og nú þegar tugir þúsunda streyma frá N-Afríku til Evrópu.

Um nokkurra ára skeið hafði dómsmálaráðuneytið sérstakan fulltrúa til að fylgjast með framvindu Schengen-mála í Brussel, undirbúa og taka þátt í fundum um málið en íslenskur ráðherra á rétt til setu í ráðherraráði Schengen-samstarfsins. Þessari hagsmunagæslu hefur nú verið lokið í sparnaðarskyni.

Ég er fylgjandi þátttöku Íslands í Schengen-samstarfinu enda sé hagsmuna þjóðarinnar gætt á öllum stigum þátttökunnar í samræmi við reglur um það efni. Íslendingum ber einnig að fara eftir Dublin-reglunum.

Í umræðum um evruna og hinn mikla vanda hennar eru hinn sameiginlegi gjaldmiðill og Schengen-samstarfið nefnd sem þeir þættir þar sem samstarf Evrópuríkjanna hefur náð lengst en nú sé hvoru tveggja stefnt í voða vegna innri ágreinings.