17.6.2011

Föstudagur 17. 06. 11.

Þjóðhátíðin var með hefðbundnu sniði í Fljótshlíðinni. Um 300 manns komu saman í Goðalandi, þar sem séra Önundur Björnsson flutti ávarp og Guðrún Ásmundsdóttir leikkona hátíðarræðu í minningu Tómasar Sæmundssonar og Sigríðar konu hans. Þá fengu þeir sem reka hótel Fljótshlíð viðurkenningu. Loks nutu gestir glæsilegra kaffiveitinga á vegum kvenfélagsins.

Hrafnseyri0012Myndin hérna við hliðina er tekin á varðskipinu Óðni fyrir 50 árum, 17. júní 1961. Áhöfnin myndar heiðursvörð þegar herra Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, yfirgefur skipið við Hrafnseyri í Arnarfirði. Hann flutti þar ræðu þegar áform hans um endurreisn Hrafnseyrar í minningu Jóns Sigurðssonar urðu að veruleika. Ég er einn þeirra sem mynda heiðursvörðinn. Gunnar Vigfússon sendi mér þessa mynd á dögunum en Vigfús Sigurgeirsson, faðir hans, tók hana.