7.5.2010

Föstudagur, 10. 05. 10.

Hér má nálgast síðasta þátt minn á ÍNN - viðtal við Hildi Sverrisdóttur, lögfræðing og frambjóðanda Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Skýrt var frá því, að nefnd Gunnars Helga Kristinssonar, prófessors í stjórnmálafræði, sem Jóhanna Sigurðardóttir skipaði til að bregðast við stjórnsýsluþætti hrunskýrslunnar, hefði skilað áliti. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér skýrsluna, sem er 63 bls. Mér þóttu ummæli Gunnars Helga um meginefni skýrslunnar ekki marka nein tímamót. Sjálfur treysti ég dómgreind samstarfsmanna minna og á ráð þeirra um, hverjir skyldu ráðnir eða skipaðir til starfa í ráðuneytum undir minni stjórn.

Sé það meginkjarni í tillögum nefndarinnar um umbætur í stjórnarráðinu, að embættismannakerfið sé eflt til að starfa, án þess að ráðherra komi að ákvörðunum um álitamál, hljóta að vakna umræður um vald framkvæmdavaldsins á kostnað stjórnmálavaldsins og þar með alþingis. Hin síðustu ár hefur þingmönnum þótt nóg um yfirgang framkvæmdavaldsins.

Þegar ég hlusta á Gunnar Helga tala um aðferðir við ráðningu manna til starfa í stjórnarráðinu, rifjast upp fyrir mér samtöl við þá, sem komu til mín sem menntamálaráðherra og kvörtuðu undan því, hvernig staðið var að vali kennara í Háskóla Íslands, eftir að skipunarvaldið var tekið úr höndum ráðherra.

Sérstaklega er mér minnisstætt, þegar ég heyrði orðið „hlöðukálfur“ í fyrsta sinn. Viðmælandi minn átti við, að innan háskólans veldu þeir kennarar, sem fyrir væru, einhvern, sem þeir vildu gjarnan fá til starfa í deild sinni og gæfu honum forskot með því að gera hann að hlöðukálfi og afla sér þannig reynslu og velvild umfram aðra.

Vissulega kann eitthvað svipað að gerast innan stjórnarráðsins og er líklegra til að gerast, sé dregið úr hinu pólitíska valdi. Augljóst er á umræðum, sem orðið hafa um skipan dómara á undanförnum árum, að dómarar vilja ráða því, hverjir starfa við dómstólana. Nýlegur héraðsdómur vegna skipunar dómara er enn frekari staðfesting á áhuga dómara á að svipta stjórnmálamenn áhrifum á val dómara.