18.9.2009

Föstudagur, 18. 09. 09.

Það rigndi töluvert í Fljótshlíðinni í dag en ég bjó mig undir göngurnar á morgun, þegar spáð er betra veðri.

Barack Obama, Bandaríkjaforseti, tók sögulega ákvörðun og kynnti hana í gær um að falla frá áformum um gagneldflaugakerfi í Tékklandi og Póllandi. Tvær ástæður eru tilgreindar: Íranir séu ekki eins nálægt því að eignast langdrægar eldflaugar með kjarnavopnum og áður var talið. Bandaríkjamenn ætli að beita annarri og einfaldari tækni til að snúast gegn eldflaugahættunni.

Kúvending Bandaríkjastjórnar minnir á einhliða sinnaskipti Jimmys Carters, þegar hann tilkynnti, að hann væri hættur við að flytja nifteindarsprengjur til V-Þýskalands. Helmut Schmidt, kanslari, tók sinnaskiptunum mjög illa og taldi þau til marks um, að ekki væri unnt að treysta Bandaríkjamönnum, þeir skildu póltíska bandamenn sína eftir á berangri, ef og þegar þeim hentaði.

Svipaðar raddir heyrast nú frá Póllandi og Tékklandi. Þar var litið á bandarísku gagneldflaugastöðvarnar sem fótfestu gegn hugsanlegum yfirgangi Rússa. Stjórnmálamenn lögðu hart að sér við að sannfæra kjósendur um nauðsyn stöðvanna eins og Schmidt forðum.

Obama segist að sjálfsögðu ekki ætla að slá neitt af gagnvart Rússum. Hið sama sagði Carter á sínum tíma en þó var þess vænst, að Rússar myndu draga úr hervæðingu sinni í Austur-Evrópu, því að nifteindarsprengjan hafði verið fleinn í holdi þeirra eins og gagneldflaugastöðvarnar nú. Rússar drógu ekki í land á tímum kalda stríðsins heldur færðust í aukana gagnvart Vestur-Evrópu. Hvað skyldu þeir gera nú gagnvart nágrönnum sínum, Georgíu og Úkraínu?

Ég skrifaði pistil um ritstjóraskipti á Morgunblaðinu.