Þriðjudagur, 15. 09. 09.
Alþingi samþykkti 16. júlí að óska eftir viðræðum um aðild að Evrópusambandinu. Í skoðanakönnun á vegum Samtaka iðnaðarins, sem birt var í dag, tveimur mánuðum eftir að umræður ESB-aðild voru í hámarki, kemur fram, að andstaða við aðild að ESB hefur aukist meðal landsmanna á þeim tíma, sem síðan er liðin, þrátt fyrir komu sendimanna ESB til landsins og alls kyns yfirlýsingar frá útlöndum um, að Íslandi yrði fagnað sem nýjum félaga í klúbbnum og reynt að flýta inngöngu eins og frekast sé kostur.
Olli Rehn og félögum hans í stækkunardeild ESB er ljóst, að þeim er ekki fagnað hér á landi á sama hátt og annars staðar. Þeim er einnig ljóst, að annar stjórnarflokkurinn er andvígur aðild, þótt hann hafi samið um að styðja ósk um viðræður til að ná í ráðherrastóla. Þá skýrist fyrir þeim núna, að meðal almennings er ekki áköf þrá eftir að komast í ESB. Spyrja má: Hvers vegna skyldu þeir leggja mikið á sig til að ljúka mati á ósk Íslands um viðræður?
Óðagotið við að svara 2.500 spurningum ESB undir stjórn utanríkisáðuneytisins er með öllu óskiljanlegt. Hvers vegna er lagt svona hart að ráðuneytum að svara þessum spurningum á mettíma? Við hvern er verið að keppa? Væri ekki nær, að embættismenn einbeittu sér að einhverju öðru?
Málsmeðferð hér heima fyrir frá 16. júlí undir forystu utanríkisráðuneytisins hefur ekki orðið til þess að afla ESB-málstað ríkisstjórnarinnar fylgis. Þótt gert sé tvennt af öllu, umsókn afhent tvisvar og spurningalistar afhentir tvisvar, hefur það hvorki orðið til að auka traust né vinsældir.