13.9.2009

Sunnudagur, 13. 09. 09.

Ég vakti máls á því í pistli hér á dögunum, að eðlilegt væri að þýða 2.500 spurningar ESB til Íslendinga á íslensku og einnig birta svör við þeim á íslensku á netinu, til að ekkert færi á milli mála. Vegna þessa hef ég sætt gagnrýni frá Friðriki Jónssyni, formanni framsóknarmanna á Akranesi og starfsmanni utanríkisráðuneytisins. Hann segir á bloggsíðu sinni, að þetta sé tæplega marktækt sjónarmið í umræðum um ESB-aðildina. Hvort ég hafi ekki átt samskipti um Schengen-málefni og annað á ensku. Það sé háttur íslenskra embættismanna að semja við aðrar þjóðir á ensku.

Að sjálfsögðu eiga íslenskir embættismenn almennt ekki samskipti við aðrar þjóðir á íslensku. Aðild að Evrópusambandinu er hins vegar mál af þeirri stærð, að um hana gilda sérreglur. Til dæmis er ljóst, að ekki verður af aðild nema meirihluti landsmanna samþykki hana í þjóðaratkvæðagreiðslu. Við þær aðstæður skiptir miklu, að allar upplýsingar séu við hendi kjósenda, þar á meðal spurningar og skilyrði Evrópusambandsins.

Oft heyrist kvartað undan því, að fólk viti ekki um hvað ESB-aðild snúist. Til að auðvelda mönnum að átta sig á því, má benda á spurningalista ESB. Hann kemur þó ekki að gagni að þessu leyti nema hann sé á íslensku. Þótt embættismenn ræði við annarra þjóða menn á ensku, er ekki unnt að leggja mál um stöðu þjóðarinnar undir atkvæði hennar og segja kjósendum að lesa enska texta til að átta sig á því, hvað hangir á spýtunni.

ESB-aðildarsinnum eins og Friðriki Jónssyni kann að liggja mikið á að komast í fyrirheitna landið. Meirihluti þjóðarinnar er hins vegar annarrar skoðunar og honum á að gefa tækifæri til að átta sig sem best á öllum málavöxtum. Varla er Friðrik á móti því? Hann getur ekki talið, að góð kynning á spurningum og skilyrðum ESB dragi enn úr áhuga Íslendinga á aðild?