12.9.2009

Laugardagur, 12. 09. 09.

 Í fréttum RÚV klukkan 08.00 mátti heyra þessa frétt:

„Væru Írar ekki í Evrópusambandinu væru þeir jafn illa staddir og Íslendingar, stuðningur og öryggisráðstafanir Evrópusambandsins komu í veg fyrir að Írland stefndi í gjaldþrot eins og Ísland. Þetta segir Margot Wallström, fyrsti varaforseti Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í viðtali við dagblaðið Evening Herald í Dyflinni. Wallström er á Írlandi til að afla Lissabon-sáttmálanum fylgis. Írar höfnuðu honum í þjóðaratkvæðagreiðslu í júní í fyrra en greiða atkvæði um hann að nýju 2. október. Wallström segir Evrópusamstarfið mikla blessun fyrir Íra, ekki síst á erfiðleikatímum eins og um þessar mundir.

Enginn þurfi að elska Evrópusambandið, menn eigi hins vegar að nýta möguleika þess. Það sé enginn tilviljun að Íslendingar sæki um aðild að Evrópusambandinu þegar þeir sjái það skjól sem sambandið veiti Írum og þá samstöðu sem þeir njóti þar á erfiðum tímum.“

Ég hef ekki skoðað þetta viðtal í Evening Herald  í Dyflinni. Sé rétt eftir Wallström haft, sýnir það aðeins, hve málsvarar ESB leyfa sér að ganga langt í áróðri sínum. Þarna segir Wallström, að Ísland sé gjaldþrota, af því að landið sé utan ESB. Siðan eru lokaorðin merkileg. Íslendingar hafa ekki sótt um aðild, þeir hafa sótt um að ræða við ESB og taka síðan ákvörðun um aðild. Í Brussel líta menn ekki þeim augum á málið og skrökva síðan að Írum til að fá þá í lið með Lissabon-sáttmálanum.

Hér á landi er látið í veðri vaka, að sú meginfrétt hafi farið fram hjá öllum, að OIli Rehn hafi í ræðu sinni í Háskóla Íslands 9. september gefið til kynna, að fyrir lægi ESB-áætlun í þágu efnahags Íslendinga, ef þeir gerðust ESB-aðilar. Þeir Össur og Olli hafi gengið frá einhverju leynilegu samkomulagi um þetta, en málið farið fram hjá fjölmiðlamönnum, þó hafi verið minnst á það í hádegisfréttum miðvikudaginn 9. september. 

Olli Rehn kvartaði undan því í ræðu sinni hér, að sögusagnir og samsæriskenningar væru notaðar til að sverta ESB. Hvernig væri, að hann og Össur segðu afdráttarlaust frá því, ef þeir hafa samið um einhver efnahagsúrræði fyrir Íslendinga? Eða er hér aðeins verið að kveikja villuljós eins og frú Wallström gerði í Evening Herald?