3.9.2009

Fimmtudagur, 03. 09. 09.

Hér er tenging á samtal okkar Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um Svartbók kommúnismans á sjónvarpsstöðinni ÍNN, sem fyrst var sent 2. september.

Egill Helgason telur, að athugasemd mín hér á síðunni í gær um íhlutun OECD í íslensk innanríkismál byggist á því, sem hann kallar „móðgunargirni“. Ef ég ætti að finna eitthver gildishlaðin orð yfir þessa skoðun Egils dytti mér í hug „minnimáttarkennd“ eða „útlendingasmjaður“.

Íslensk fjölmiðlun er orðin svo heltekin af því, að Íslendingar verði að bukka sig og beygja, heyrist eitthver gagnrýni frá útlöndum, samanber hnjáliðamýkt Morgunblaðsins gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu, að nú verða menn að leita út fyrir landsteinana til að kynnast viðhorfum álitsgjafa, sem setja íslensk málefni í eðlilegt samhengi. Þetta gerðist í Icesave og einnig nú þegar OECD birtir skýrslu sína. Þá snýr norskur blaðamaður, Thomas Vermes á norska fréttavefnum ABC, sér til málsvara OECD og spyr, hvort nokkuð sé meira að marka þá núna, en þegar OECD lofaði frelsisvæðingu bankanna sem allir telji nú að eigi mestan þátt í „efnahagsharmleik Íslands“.

Í greininni rifjar Vermes upp umsögn í skýrslu samtakanna árið 2006:

„Fjármálamarkaðurinn á Íslandi blómstrar og aðgangur að fjármagni hefur batnað mjög. Eftirlit með  starfsemi á fjármálmörkuðum hefur verið aflétt, viðskiptabankar hafa verið einkavæddir og geirinn opnaður fyrir alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum. Þessi frjálshyggjustefna hefur sýnt aðdáunarverðan árangur og skal haldið áfram.“ 

Nú segja málsvarar OECD, að eftirlitið á Íslandi hafi brugðist. Bankarnir hafi orðið alltof stórir, til að lúta stjórn kerfisins. Þeir hafi orðið fyrir höggi, sem OECD hafi ekki séð fyrir. Nú myndu þeir leggja meiri áherslu á gildi eftirlits og að bankakerfið yrði ekki of stórt. 

Þegar álitsgjafinn Egill segir, að það sé „móðgunargirni“ að spyrja spurninga vegna skýrslu OECD og ráða þaðan til Íslendinga, sýnir það enn, hve ósýnt honum er um að setja mál í samhengi.