1.9.2009

Þriðjudagur, 01. 09. 09.

Í dag eru 70 ár frá upphafi annarrar heimsstyrjaldarinnar. Stalín og Hitler gerðu samning um að skipta Evrópu á milli sín og nasistar réðust inn í Pólland þennan dag fyrir 70 árum. Stalín sendi her sinn inn í landið tveimur vikum síðar. Hann lét drepa foringja í her og lögreglu Póllands í Katyn-skógi og síðan beita alla harðræði, sem sögðu sannleikann um voðaverkin.

Furðulegt er, hvað íslenskir fjölmiðlar gera lítið úr þessum sögulega atburði eða áhrifum hans. Víða um heim er efnt til minningarathafna og vissulega er tilefni til þess hér.

Fór í hádeginu í dag og hlýddi á Thomas Devine, sérstakan ráðgjafi Bandaríkjastjórnar um uppljóstrun (whistleblowing),  flytja erindi í Háskólanum í Reykjavík. Í lögum um sérstakan saksóknara vegna bankahrunsins eru í fyrsta sinn sett ákvæði um vernd uppljóstrara í íslenska sakamálalöggjöf og líklega er ákvæðið einstakt á Norðurlöndunum. Áður var svipað ákvæði komið hér í samkeppnislöggjöfina.

Enska orðið whistleblower (flautari) um þá, sem vekja athygli út fyrir sitt nánasta starfsumhverfi á einhverju, sem þeir telja brjóta í bága við lög og reglur, hefur jákvæðan tón. Devine sagði að á sumum tungum væru þessir menn kallaðir hringjarar eða vitaverðir. Þetta eru einnig orð með jákvæðum tóni. Íslenska orðið „uppljóstrari“ hefur ekki endilega jákvæðan tón. Vissulega eru þeir, sem „kjafta frá“, ekki alltaf hátt skrifaðir í hópnum. Miklu skiptir að takist að vinna málstað þeirra stuðning sem flestra til að auka þeim kjark.

Meðferð mála af þessu tagi er viðkvæm. Af orðum Devines má ráða, að í Bandaríkjunum hafi það skilað ríkissjóði stórfé, að búið hafi verið í haginn fyrir þá, sem telja sér skylt að láta aðra vita af því, ef þeir telja til dæmis illa farið með opinbert fé.