11.11.2008 20:55

Þriðjudagur 11. 11. 08.

Fyrir réttri viku var allt að sjóða upp úr í fjölmiðlum, vegna þess að ekki væri nóg að gert til að rannsaka fjárþrot bankanna. Ráðist var að mér. ríkissaksóknara og Boga Nilssyni, fyrrverandi ríkissaksóknara, á röngum forsendum. Í dag var ég á rúmlega 90 mínútna opnum fundi í allsherjarnefnd alþingis og ræddi efni nýs frumvarps um sérstakan saksóknara til að fjalla um refsiverða þætti fjárþrotsins auk annarra mála.

Frumvarpið var lagt fram á alþingi í dag. Þar er meðal annars það nýmæli, sem hvergi er á Norðurlöndum, að veitt er heimild til að falla frá ákæru á hendur þeim, sem veitir lögreglu eða saksóknara upplýsingar vegna gruns um afbrot - ákvæði um uppljóstrara eða „litla landsímamanninn“ og sagt er hér á landi. Nú bregður svo við, að fjölmiðlar hafa lítinn eða engan áhuga á þessu máli.

Fundurinn í allsherjarnefnd hófst klukkan 11.00 og honum lauk um 12.30. Hann má sjá hér

  • Opinn fundur með dóms- og kirkjumálaráðherra 11. nóvember 2008
  • Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, sagði af sér þingmennsku í dag, eftir að hafa orðið uppvís um skammarlegt prakkarastrik gagnvart Valgerði Sverrisdóttur, varaformanni Framsóknarflokksins, þegar hann ætlaði að fela aðstoðarmanni sínum að dreifa til fjölmiðla úr nafnlausu netfangi gagnrýnisbréfi tveggja framsóknarmanna í Skagafirði á Valgerði - þá varð Bjarna á að senda pukurtilmæli sín til aðstoðarmannsins til fjölmiðla.

    Bjarni sat með mér í Þingvallanefnd og kynntist ég honum helst á þeim vettvangi þann stutta tíma, sem hann sat á þingi. Þar hreyfði hann tillögu um breytingu á byggingarskilmálum sumarbústaða, sem hefur kallað á vinnu innan nefndarinnar, án þess að henni sé lokið við brottför hans.

    Prakkarastrik Bjarna er utan þess, sem þingmenn eiga að venjast í samskiptum sín á milli. Í pólitísku tilliti er það til marks um hatrömm átök innan Framsóknarflokksins og sýnir, hve slæm áhrif Evrópudeilur hafa á andrúmsloft innan flokka. Þurfa menn að kynda undir slíkar deilur á þessum örlagatímum? Ekki framsóknarmenn.

    DV heldur áfram stríði við lögregluyfirvöld og Morgunblaðið og telur sig geta sannað eitthvað um viðbúnað lögreglu með hálfkveðnum vísum og hreinum uppspuna. Getsakir DV um starfshætti lögreglu eru blaðinu síst til framdráttar.