5.11.2008 21:28

Miðvikudagur, 05.11.08.

Barack Obama vann verðskuldaðan sigur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Hann stóð sig einstaklega vel í kosningabaráttunni. Fundið var að reynsluleysi hans, en á það var bent, að maður, sem safnaði svo miklum fjármunum frá almenningi og sigraði kosningavél Clinton-hjónanna innan eigin flokks, hlyti að búa yfir miklum hæfileikum. Hann sigðraði kosningavél repúblíkana einnig örugglega, en hún hefur löngum verið talin öflugri en flest önnur slík kosningatæki.

Í nýjasta þjóðarpúlsi Gallups (nóvember 2008) er spurt um viðhorf Íslendinga til nokkurra þjóða, þar á meðal Bandaríkjamanna, 22% eru jákvæðir, 34% hlutlausir og 44% neikvæðir. Jákvæðni í garð Bandaríkjamanna hefur minnkað mikið í stjórnartíð George W. Bush, 2001 voru 76% Íslendinga jákvæð í garð Bandaríkjamanna en 22%.

Líklegt er, að fleiri þjóðir en við hafi misst álit á Bandaríkjamönnum síðustu átta ár, enda er sigri Obama vel tekið um allan heim. Framsóknarmenn fagna sigri Obama með þeim orðum, að hann sé flokksbróðir þeirra og Samfylkingin er sömu skoðunar. Hið skrýtna er, að demókratar eru almennt, þótt þeir séu taldir vinstra við miðju í Bandaríkjunum, til hægri við Sjálfstæðisflokkinn. En hvað gera menn ekki til að geta fagnað sigrum annarra?

Ræða Obama, þegar hann fagnaði sigri í Chicago, verður talin til hinna merkustu í sögu Bandaríkjanna, þegar fram líða stundir, og oft mun vitnað til hennar, enda tímamótin vissulega einsök.

Nokkrum klukkustundum eftir að Obama flutti sigurræðu sína hélt Dmitri Medvedev, forseti Rússlands, fyrstu stefnuræðu sína og þótti margt í henni minna á kalda stríðið. Rússar ætla að setja skotpalla fyrir skammdrægar Iskander-eldflaugar í Kaliningrad við Eystrasalt, þar sem Litháen og Pólland mætast. Er þetta svar þeirra við bandaríska eldflaugavarnarkerfinu í Póllandi og Tékklandi. Þá sakaði hann Bandaríkjamenn um að fylgja „eigingjarnri“ utanríkisstefnu, þegar Rússar áttu í átökum við Georgíumenn sl. sumar.

Barack Obama tekur nú til við að velja menn í ríkisstjórn sína og utan Bandaríkjanna beinist athygli einkum að utanríkisráðherra og varnarmálaráðherra. Vegna reynsluleysis í utanríkis- og öryggismálum er talið, að hann muni treysta mjög á góða ráðgjafa í þessum málaflokkum. Miklu meira en John McCain hefði gert. Þess vegna hugsa starfsmenn hugveita sér gott til glóðarinnar við valdaskiptin nú.