17.9.2008 22:05

Miðvikudagur, 17. 09. 08.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, og Pál Dunay frá Geneva Center for Security Policy töluðu á opnum fundi í Valhöll í dag klukkan 17:00. Á fundinum ræddu þeir um stöðuna í varnarmálum og aukin umsvif og hernaðaruppbyggingu Rússa. Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnaði fundinum en utanríkismálanefnd Sjálfstæðisflokksins stóð fyrir fundinum.
 
Dunay er Ungverji og ræddi málið á þeim grunni. Hann taldi Rússland ekki eins ölfugt og margir ætluðu, þótt full ástæða væri til að vera á varðbergi. Honum þótti ólíklegt, að Georgía og Úkraína gerðust á næstunni aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Ástandið í Georgíu væri of erfitt í öllu tilliti til að landið fengi aðild og Úkraínumenn væru almennt á móti NATO-aðild.
 
Styrmir sagðist stjórnarhætti í Rússlandi bera öll merki fastistastjórnar. Þar gæti allt gerst. Hann sagðist eindregið andvígur því, að íslenskir friðargæsluliðar bæru vopn, þeir ættu að sinna annars konar störfum en krefðust þess, af þessum sökum hefðum við ekkert að gera í Afganistan. Þessi skoðun Styrmis sætti gagnrýni þeirra, sem ræddu hana.
 
Klukkan 19.00 aðalræðismaður Póllands á Íslandi til kvikmyndasýningar í Háskólabíói og var þar sýnd myndin Katyn en Andrzej Wajda, leikstjórinn frægi, gerði hana og var hún frumsýnd 21. september 2007. Hér má sjá kynningu á myndinni. Hún er mjög áhrifamikil. 
 
Morðin í apríl 1940 á 22.000 pólskum herforingjum, lögreglumönnum, menntamönnum auk annarra í Katyn-skógi 19 km vestur af Smolensk í Sovétríkjunum vorum framin að fyrirlagi Jósefs Stalíns í því skyni að afhöfða pólska herinn. Það var ekki fyrr en 1990, sem sovésk yfirvöld játuðu, að þarna hefði sovéska leynilögreglan verið blóðug upp fyrir axlir.
 
Kvikmyndin segir sögu þessara manna á einstakan hátt og tengir hana fjölskyldum þeirra og vinum auk þess sem hún sýnir, hve langt Sovétmenn  og leppar þeirra gengu til að sverja af sér glæpinn og klína honum á nasista.