28.2.2008 22:30

Fimmtudagur, 28. 02. 08.

Klukkan 10.00 hitti ég Petras Baguska, dómsmálaráðherra Litháens, í sendiráði Íslands í Brussel, þar sem við ræddum um flutning Litháa úr íslenskum fangelsum til afplánunar í Litháen. Urðum við sammála um, að þetta gengi eftir á grundvelli samnings Evrópuráðsins um fangaflutninga.

Klukkan 11.00 hófst Schengen-ráðherrafundur og snerist hann einkum um reglur um brottvísanir.

Klukkan 13.00 tók ég þátt í vinnuhádegisverði ráðherranna, þar sem einkum var rætt um vísareglur gagnvart Bandaríkjunum en Tékkar hafa tekið einhliða skref, sem sæta gagnrýni innan Evrópusambandsins.

Síðdegis fór ég í Bozart og kynnti mér listsýningar Íslendinga þar, en mikil lista- og menningarhátið var sett hér sl. þriðjudag af Geir H. Haarde forsætisráðherra. Við litum einnig inn í leiklistarsal, þar sem verið var að undirbúa sýningu á Pétri Gaut í leikstjórn Baltasar Kormáks annað kvöld. Er uppselt á sýninguna, en 900 manns tóku þátt í hátíðinni, þegar hún var formlega sett.

Klukkan 18.30 hitti ég Franco Frattini, dómsmálastjóra Evrópusambandsins, og fórum við yfir sameiginleg málefni, þar á meðal tilmæli mín um, að Ísland tengist Prüm-lögreglusamstarfssamningum. Frattini hefur tvisvar komið til Íslands sem ferðamaður og hreifst af landi og þjóð.

Af spurningum fréttamanna skilst mér, að Hrafn Bragason, fyrrverandi hæstarréttardómari, hafi veist að mér fyrir veitingu dómaraembætta á málþingi Orators miðvikudaginn 27. febrúar. Ég veit ekki hvað Hrafn hefur fyrir sér. Gagnrýni hans stenst einfaldlega ekki gagnrýni.

Í skriflegu svari mínu við fyrirspurn Árna Þórs Sigurðarsonar, þingmanns vinstri/grænna, kemur fram, hvernig ég hef staðið að skipunum í embætti héraðsdómara síðan ég varð dómsmálaráðherra í maí 2003.

Að óreyndu hefði ég talið Hrafn Bragason vandaðri í málflutningi sínum. Er áhyggjuefni, hvernig þeir, sem vilja svipta ráðherra valdi til að veita dómaraembætti, kjósa að rökstyðja mál sitt. Rök draga að vísu oft dám af málstaðnum.