23.2.2007 21:56

Föstudagur, 23. 02. 07.

Athyglisvert er að sjá, hve stefnumiðin, sem Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, kynnti í setningarræðu landsfundar flokksins í dag, eru almennt orðuð. Af þeim er augljóst, að flokksformaðurinn er að búa sig undir að geta starfað með hverjum sem er að loknum kosningum.

Steingrímur J. komst meðal annars svo að orði, að hann væri í „sjálfu sér“ ekki „að boða skattahækkanir í heild, heldur tilfærslur, enda ekki þörf á slíku miðað við afkomu ríkissjóðs eins og hún er í dag.“ Steingrímur er þrátt fyrir þessi orð sín að boða hækkanir á sköttum þeirra greiðenda, sem líklegastir eru til að flytja af landi brott, verði gripið til úrræðanna, sem Steingrímur J. hefur í huga. Búskaparhættir hans í þessu efni minna á þá, sem átta sig ekki á því, hve hættulegt getur verið að éta útsæðið. Að vinstri græn vilji hærri skatta er ekki merkilegt, en viðurkenning Steingríms J. á sterkri stöðu ríkissjóðs, gengur þvert á hrakspár hans um afleiðingar skattalækkanna ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt þeim spám ætti allur fjárhagur ríkisins að vera í kalda koli en ekki standa jafnvel og Steingrímur J. lýsir.

Steingrímur J. vill aftur skapa tilvistarkreppu hjá ríkisútvarpinu og telur það bestu leiðina til að efla þá stofnun. Speki af þessum toga verður lítils virði, þegar á reynir.

Tilhlaup Steingríms J. almennt í þeim málum, sem hann nefnir til sögunnar, er svo langt, að á þeirri leið má finna marga útganga fyrir hann frá eigin stefnu. Það er helst við útboð á ríkisstyrktum strandsiglingum, sem hann setur stíf tímamörk.

Hið litla, sem Steingrímur J. segir um utanríkismál í þessari ræðu, einkennist af hinni alkunnu óskhyggju hans, að heimurinn sé hættulaus og nóg sé að segjast vera friðsamur til að fá að vera í friði. Hann minnist hvergi á neinar ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands, hvorki hernaðarlegt né annars konar öryggi í þeim 20 stefnupunktum, sem hann nefnir. Þetta er þó frumskylda hvers ríkis gagnvart borgurum sínum.

Hann hefur fallið frá stóru orðunum um inntak leynisamnininganna frá 1951 og að þeir séu meira hneyksli en Thule-málið á Grænlandi og hann er hættur að krefjast norskrar leiðar vegna svonefndra hleranamála.

Þegar Steingrímur J. ræðir um stefnumálin minnist hann ekki á Evrópusambandið. Hann sleppir því líklega, til að það verði ekki ágreiningsefni milli hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem vill Ísland í ESB eins og vitað er. Svo virðist sem Steingrímur J. átti sig ekki á því, að einmitt í stjórn með Ingibjörgu Sólrúnu er nauðsynlegt að taka af skarið strax við upphaf stjórnarsamstarfs, hver stefnan verði í Evrópumálunum.  Steingrímur J. skautar léttilega fram hjá því eins og svo mörgu öðru í setnigarræðu sinni.